Umfjallanir um leiki 9. umferðar

Níunda umferð Kjarnafæðideildarinnar fór fram fyrr í kvöld. Ljóst var að leikir kvöldsins yrðu mjög mikilvægir enda um þriðju síðustu umferðina að ræða og staðan í efri hluta deildarinnar mjög jöfn.

Æskan mætti Hata í leik þar sem Æskan þurfti sárlega á öllum stigunum að halda til að eiga möguleika á að taka þátt í titilbaráttunni í ár. Vörn Hata hélt vel fyrstu mínúturnar en á 9. Mínútu tókst Haraldi Erni Hansen að brjóta ísinn fyrir Æskuna. Þrjú mörk fylgdu í kjölfarið og staðan í hálfleik 4-0 Æskunni í vil. Æskan datt svo heldur betur í gírinn sóknarlega í síðari hálfleik og bætti við 9 mörkum, en Hati skoraði tvö mörk. Leiknum lauk því með 13-2 sigri Æskunnar. Ingólfur Stefánsson skoraði 5 mörk fyrir Æskuna og Bjarki Kristjánsson 4. Þeir Haraldur Örn Hansen og Viktor Andrésson skoruðu eitt mark hvor. Sævar Eðvarðsson skoraði bæði mörk Hata úr vítaspyrnum.

Stórleikur umferðarinnar var leikur FC Böggur gegn toppliði UMF Sölva. Sigur í þessum leik hefði sett Sölva í mjög þægilega stöðu á toppinum fyrir lokaumferðirnar. Leikurinn var mjög jafn og spennandi allan tímann. Benedikt Jóhannsson kom Sölva yfir með marki á 11. mínútu en Jón Örvar Eiríksson jafnaði fyrir FC Böggur á þeirri 17. Staðan var því jöfn í hálfleik. Á 42. mínútu skoraði Jón Pétur Indriðason fyrir FC Böggur og kom þeim yfir. Allt stefndi í sigur FC Böggur, en þegar tvær mínútur voru eftir af venjulegum leiktíma skoraði Hilmir Gauti Garðarsson afskaplega mikilvægt mark fyrir UMF Sölva og jafnaði leikinn í 2-2. Þar við sat og niðurstaðan stórmeistarajafntefli.

FC Úlfarnir 010 og Babúska mættust í kvöld. Leikurinn var í járnum framan af en þegar þrjár mínútur lifðu af fyrri hálfleik kom Árni Gíslí Magnússon Úlfunum yfir, og staðan í hálfleik var 1-0. Í síðari hálfleik kláruðu Úlfarnir svo leikinn með þremur mörkum; Brynjar Pálsson skoraði tvö þeirra og Hlynur Sverrisson eitt. Niðurstaðan varð því afar góður sigur FC Úlfanna 010 á Babúska, 4-0.

KS lék gegn FC Jattebrä í miklum markaleik. Siglfirðingar léku þennan leik mjög vel og leiddu 5-1 í hálfleik. Þeir héldu uppteknum hætti í síðari hálfleik með því að skora fjögur mörk gegn einu marki Jattebrä. Sigur KS var því mjög sannfærandi, 9-2. Sævar Örn Kárason skoraði þrennu fyrir KS og þeir Kristinn Freyr Ómarsson, Kristófer Þór Jóhannsson og Sævar Sævarsson skoruðu tvö mörk hver. Mörk Jattebrä skoruðu Alexander Arnar Þórisson og Elmar Þór Aðalsteinsson.

Lið 603 þurfti að gefa leik sinn í þessari umferð og tapaði því sjálfkrafa fyrir FC Sopalegum, 3-0.

Eftir umferðina hefur baráttan á toppinum harðnað enn frekar, en UMF Sölvi heldur efsta sætinu með 20 stig. FC Úlfarnir 010 hafa 19 stig, og bæði Æskan og FC Böggur 13 stig. Þess má geta að FC Úlfarnir 010 og UMF Sölvi mætast einmitt í síðustu umferð mótsins þann 31. ágúst – en mögulegt er að sá leikur verði hreinn úrslitaleikur um sigur í Kjarnafæðideildinni í ár. Næst síðasta umferð mótsins fer fram næsta fimmtudag, 24. ágúst.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *