Umfjallanir um leiki 8. umferðar

Segja má að lokasprettur Kjarnafæðideildarinnar í fótbolta hafi hafist í Boganum í kvöld þegar 8. umferðin var leikin, en nú eru einungis þrjár umferðir eftir af deildinni og lokaumferðin fer fram á síðasti degi ágústmánaðar.

Hati mætti KS í kvöld. Siglfirðingar voru talsvert sterkari aðilinn og leiddu í hálfleik 7-0. Leikmenn Hata byrjuðu þó síðari hálfleikinn vel og Sævar Eðvarðsson rak smiðshöggið á góða sókn þeirra og minnkaði muninn í 7-1. Þá tók KS við sér að nýju og bætti 8 mörkum við áður en leiktíminn var úti og sigraði þar með leikinn 15-1. Sævar Örn Kárason skoraði 7 mörk fyrir KS, Kristinn Freyr Ómarsson 5 og Kristófer Þór Jóhannsson 3. Sem fyrr segir var það Sævar Eðvarðsson sem skoraði mark Hata.

FC Böggur byrjaði betur í viðureign sinni við FC Sopalegir og voru sterkari aðilinn í fyrri hálfleik. Hálfleikstölur voru 2-0 FC Böggur í vil. FC Sopalegir bitu frá sér strax í upphafi síðari hálfleiks og minnkuðu muninn í 2-1. Þrátt fyrir góða baráttu í síðari hálfleik reyndist FC Böggur einfaldlega vera of stór biti fyrir FC Sopalega, og lauk leiknum með 5-2 sigri FC Böggur. Það voru þeir Davíð Örn Oddsson, Georg Fannar Haraldsson, Jón Björn Þorsteinsson, Karl Ólafur Hinriksson og Sigurður Haukur Valsson sem skoruðu mörkin fyrir FC Böggur. Mörk FC Sopalegra skoruðu Hrólfur Jón Flosason og Jónas Halldór Friðriksson.

Topplið deildarinnar, UMF Sölvi, mætti Babúska í mikilvægum leik í toppbaráttunni. Með sigri hefði Babúska getað minnkað forskot UMF Sölva á sig niður í þrjú stig. Leikmenn UMF Sölva gerðu sér aftur á móti grein fyrir mikilvægi leiksins og höfðu góð tök á honum lengstan hluta leiksins. Svo fór að UMF Sölvi vann sannfærandi 7-1 sigur og styrkti þannig stöðu sína á toppi deildarinnar. Gunnar Björn Ólafsson skoraði mark Babúska en Magnús Ingi Birkisson og Ottó Ernir Kristinsson skoruðu báðir tvö mörk fyrir UMF Sölva. Þá skoruðu Ágúst Örn Víðisson, Benedikt Jóhannsson og Tómas Ingi Hilmarsson eitt mark hver.

Lið 603 og FC Mývetninga gátu af óviðráðanlegum orsökum ekki mætti í leiki sína í 8. umferðinni í kvöld. Bæði lið dæmast því hafa tapað leikjum sínum. Samkvæmt þeim úrskurði eru úrslit síðustu tveggja leikja kvöldsins eftirfarandi:

Æskan 3-0 603
FC Úlfarnir 010 3-0 FC Mývetningur

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *