Umfjallanir um leiki 7. umferðar

7. umferð Kjarnafæðideildar KDN var leikin í Boganum í gærkvöldi. Topplið UMF Sölva mætti þar FC Jattebrä. Leikurinn var mjög jafn framan af og ljóst að Jattebrä ætlaði að selja sig dýrt. Staðan í hálfleik var jöfn, 2-2. Í síðari hálfleik sýndi UMF Sölvi aftur á móti styrk sinn og skoraði fjögur mörk gegn einu marki Jattebrä. Lokatölur urðu því 6-3, UMF Sölva í vil. Halldór Logi Valsson og Ottó Ernir Kristinsson skoruðu tvö mörk hvor fyrir UMF Sölva og þeir Magnús Ingi Birkisson og Tómas Ingi Hilmarsson sitt markið hvor. Alexander Arnar Þórisson bætti enn á markareikning sinn í mótinu og skoraði tvö mörk fyrir Jattebrä.

Svakalegasti leikur kvöldsins var án nokkurs vafa viðureign Babúska og KS. Hjörvar Aðalsteinsson kom KS yfir strax á 5. mínútu, en Sindri Davíðsson, nýr leikmaður Babúska, kom liði sínu yfir með tveimur mörkum á 16. og 17. mínútu. Hjörvar Aðalsteinsson jafnaði fyrir KS á 20. mínútu og Gabríel Reynisson kom KS aftur í forystu með marki á 23. mínútu. Bjarki Freyr Brynjólfsson og Jónas Pétursson skoruðu tvö mörk rétt fyrir lok fyrri hálfleiks og það var því Babúska sem leiddi í hálfleik, 4-3. Sindri Davíðsson virtist vera að klára leikinn fyrir Babúska með því að skora mörk á 29. og 36. mínútu – enda Babúska þá komið í 6-3. Siglfirðingar voru aftur á móti ekki á sama máli. Á 6 mínútna kafla rétt undir lok leiksins skoruðu þeir Kristinn Freyr Ómarsson, Kristófer Þór Jóhannsson og Marteinn Aðalsteinsson eitt mark hver og jöfnuðu leikinn, 6-6. Fleiri urðu mörkin ekki og skiptust liðin því á jafnan hlut í þessum magnaða knattspyrnuleik.

Nýkrýndir bikarmeistarar FC Mývetningur tóku á móti Æskunni. Fljótlega varð ljóst að sigurhátíð Mývetninga frá því í síðustu viku hefur fylgt einhver höfuðverkur, og Æskan vann að lokum sannfærandi sigur, 9-1, eftir að hafa verið 4-1 yfir í hálfleik. Jón Þorláksson skoraði mark Mývetninga. Ingólfur Stefánsson og Hákon Guðni Hjartarson skoruðu báðir þrennu fyrir Æskuna, en þar að auki skoruðu Jakob Atli Þorsteinsson, Ruben Raes og Viktor Andrésson eitt mark hver. Æskan er því komin upp í 6. sæti deildarinnar og er búið að blanda sér í þá gríðarlega spennandi toppbaráttu sem er framundan.

603 og FC Böggur mættust. Leikmenn FC Böggur mættu mjög ákveðnir til leiks og voru staðráðnir í því að gera betur en í síðasta leik sínum í deildinni, sem þeir töpuðu naumlega gegn Babúska í 5. Umferðinni, 1-0. Birgir Þór Þrastarson skoraði tvö mörk fyrir FC Böggur í fyrri hálfleik, og hálfleikstölur því 2-0. Í síðari hálfleik skoraði Jón Pétur Indriðason tvö mörk fyrir FC Böggur og þeir Jón Björn Þorsteinsson og Karl Ólafur Hinriksson sitt markið hvor. Hlynur Viðar Sveinsson lagaði stöðuna fyrir 603 með tveimur mörkum. Lokatölur urðu því 6-2, FC Böggur í vil.

Lokaleikur kvöldsins reyndist hörkuviðureign milli FC Úlfanna 010 og FC Sopalegra. Leikurinn var jafn og spennandi frá fyrstu mínútu til þeirrar síðustu, en eftir að staðan í hálfleik hafði verið jöfn, 2-2, skoruðu liðin sitt markið hvort í síðari hálfleik – og verður jafntefli að teljast sanngjörn niðurstaða. Valþór Atli Guðrúnarson skoraði tvö mörk fyrir Úlfana og Bergvin Þór Gíslason eitt. Ales Mucha, Jónas Halldór Friðriksson og Kristófer Andri Ólafsson skoruði eitt mark hver fyrir FC Sopalegir.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *