Þrír leikir fóru fram í Kjarnafæðimótinu í gær. Fyrsti leikur kvennadeildarinnar fór fram og áttust þar við Þór/KA og Tindastóll. Þór/KA var með yfirhöndina í leiknum gegn ungu liði Tindastóls og uppskáru mark á 24.mínútu sem Amalía Árnadóttir skoraði eftir sendingu frá Bríeti Bjarnadóttur. Þór/KA sótti áfram án afláts en góð vörn og markvarsla hjá Tindastóli kom í veg fyrir að mörkin yrðu fleiri. Næsti leikur í kvennadeildinni verður eftir áramótin.
Í öðrum leik dagsins mættust Þór2 og KFA í A-deild: A-riðli. Mikið jafnræði var með liðunum og ljóst að bæði lið ætluðu að leggja allt í sölurnar. Fjögur gul spjöld fóru á loft í leiknum og tvær vítaspyrnur dæmdar. Leikurinn endaði með jafntefli 2-2. Mörk Þórs skoruðu þeir Pétur Orri Arnarson og Atli Þór Sindrason (víti) en bæði mörk KFA skoraði Marteinn Már Sverrisson (annað markið var víti)
Síðasti leikur dagsins var svo mikill markaleikur en þá áttust við Magni og Völsungur í A-deild: B-riðli.
Völsungar sem eru á leið í Lengjudeildina sóttu án afláts í leiknum meðan Grenvikingar vörðust og beittu skyndisóknum.
Öll mörk Magna komu úr skyndisóknum eða seinni bylgju.
Staðan í hálfleik var 4-1 fyrir Magna eftir mörk frá Sindra og Viðari (eftirnöfn vantar og mættu Magnamenn bæta úr því fyrir næsta leik) en báðir skoruðu þeir tvö mörk en fyrirliði Húsvíkinga, Arnar Pálmi Kristjánsson skoraði fyrir þá.
Í seinni hálfleik minnkaði Gestur Aron Sörensson muninn eftir frábæran undirbúning Óskars Ásgeirssonar.
Ottó setti hinsvegar síðasta mark Magna og fullkomnaði leik þeirra og ljóst að þeir koma vel undan haustfríi