Höttur/Huginn með góðann sigur á KF

Höttur/Huginn og KF áttust við í Boganum í kvöld og enduðu leikar 4-2 fyrir Hetti/Huginn. Leikurinn var hin mesta skemmtun og jafnræði var með liðunum sem skiptust á að sækja. Á 18. mínútu urðu KF fyrir því óláni að skora sjálfsmark en það tók einungis tæpar 10 mínútur fyrir þá að jafna aftur leikinn. Þar var að verki fyrirliðinn Marinó Snær Birgisson sem skorði með glæsilegu langskoti. Bjarki Fannar Helgason kom Hetti/Huginn aftur yfir í leiknum rétt fyrir leikhlé og staðan því 2-1 þegar flautað var til hálfleiks.

KF byrjuðu seinni hálfleikinn af krafti og Sævar Þór Fylkisson jafnaði metin á 53. mínútu leiksins. Það var svo á 73. mínútu sem að Þórhallur Ási Aðalsteinsson skoraði þriðja mark Hattar/Hugins. Á 76. mínútu dró til tíðinda en þá slapp leikmaður Hattar/Hugins einn í gegn og Andri Már Hilmarsson leikmaður KF reyndi að hlaupa leikmanninn uppi en varð fyrir því óláni að brjóta af sér og lítið annað í stöðunni en að gefa rauða spjaldið. KF menn því einum færri síðustu 15 mínúturnar. Höttur/Huginn nýtti sér liðsmuninn og var það Almar Örn Róbertsson lánsmáður frá KA sem skoraði síðasta mark leiksins og 4-2 niðurstaðan eins og áður segir.

Höttur/Huginn er því sem stendur í 2.sæti í A-riðli, A-deildar með 3 stig. Við óskum báðum liðum góðrar ferðar heim.