Æskan Kjarnafæðideildarmeistari 2018

Æskan varð í kvöld Kjarnafæðideildarmeistari 2018, en liðið er ósigrað og hefur níu stiga forskot á FC Samba í 2. sæti deildarinnar þegar einungis einni umferð er ólokið.

FC Samba lék við FC Bögg í miklum markaleik. FC Samba var fyrra liðið til að skora í fyrri hálfleik en FC Böggur jafnaði og hálfleikstölur 2-2. Snemma í síðari hálfleik kláraði FC Böggur leikinn með þremur mörkum og stuttu millibili, og þrátt fyrir harða atlögu tókst FC Samba aldrei að komast nærri því að jafna leikinn eftir það. Lokatölur voru 7-3 fyrir FC Böggur. Karl Ólafur Hinriksson skoraði þrennu fyrir FC Böggur, en auk þess skoruðu Davíð Örn Oddsson, Georg Fannar Haraldsson, Óðinn Stefánsson og Jón Pétur Indriðason eitt mark hver. Hjá FC Samba voru það Agnar Bjarni Jörgensen, Bjarki Már Hafliðason og Ingimundur Norðfjörð sem skoruðu sitt markið hver.

Næst var komið að leik FC Böggur og Héðinn FC, en um var að ræða frestaðan leik frá því úr 8. umferð. Í fyrri hálfleik virtist það koma í bakið á FC Böggur að vera nýbúið að spila leikinn við FC Samba og því eðlilega aðeins minni orka eftir á tankinum. Friðrik Vestmann kom Héðinn FC yfir snemma leiks og einni mínútu fyrir lok fyrri hálfleiks bætti Viktor Freyr Heiðarsson við öðru marki. Staðan í hálfleik var því 2-0 fyrir Héðinn FC. FC Böggur mætti mun grimmari til leiks í síðari hálfleik enda staðráðnir í að byggja á þeim góða leik sem liðið átti gegn FC Samba fyrr um kvöldið. Markahrókurinn Karl Ólafur Hinriksson minnkaði muninn strax á 2. mínútu síðari hálfleiks, og það var svo Davíð Örn Oddsson sem tryggði FC Böggur stig í leiknum með marki á 36. mínútu. Lokatölur 2-2.

FC Heavyweight og Mývetningar þurftu bæði að gefa leiki sína í kvöld þar sem þau náðu ekki að manna lið sín. Héðinn FC sigraði því FC Heavyweight 3-0 og Æskan vann FC Mývetning 3-0.

Sem fyrr segir er Æskan Kjarnafæðideildarmeistari 2018 og mun verðlaunaafhending fara fram í lokaumferð keppninnar næstkomandi fimmtudag, 16. ágúst. Enn er mikil spenna í baráttunni um markakóngstitilinn, en þeir Alexander Arnar Þórisson í FC Samba, Hjörtur Gylfason í FC Mývetningi og Jakob Atli Þorsteinsson í Æskunni eru efstir og jafnir með 8 mörk skoruð. Á hæla þeirra koma Elvar Goði Yngvason í FC Mývetningi og Karl Ólafur Hinriksson í FC Böggur með 7 mörk hvor.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *