Umfjöllun um 8. umferð Kjarnafæðideildarinnar

Einungis einn leikur fór fram í Kjarnafæðideildinni í kvöld. Leikur FC Böggur og Héðinn FC hefur verið færður aftur til fimmtudagsins 9. ágúst klukkan 20:00. Þá gaf FC Heavyweight viðureign sína við FC Mývetning og úrslit þess leiks verða því sjálfkrafa 3-0 fyrir FC Mývetningi.

Leikurinn sem fram fór í kvöld var toppslagur Kjarnafæðideildarinnar, en með sigri hefði FC Samba jafnað Æskuna að stigum á toppi deildarinnar. Bæði liðin spiluðu mjög góðan og agaðan varnarleik. Leikmenn Æskunnar sóttu meira framan af leik en FC Samba vann sig betur inn í leikinn og sótti meira síðar í leiknum. Eina mark leiksins skoraði Jakob Atli Þorsteinsson, glæsilegt mark beint úr aukaspyrnu rétt utan vítateigs FC Samba átta mínútum fyrir leikslok. FC Samba sótti mikið eftir markið og fékk meðal annars dauðafæri á síðustu sekúndum leiksins þar sem boltinn rúllaði eftir marklínu Æskunnar. Inn vildi boltinn þó ekki og niðurstaðan 1-0 sigur Æskunnar, sem er nú komin í afar vænlega stöðu til að sigra Kjarnafæðideildina.

Næsta umferð fer fram fimmtudaginn 9. ágúst.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *