Það var boðið upp á spennandi slag þegar KFA og Magni mættust í Boganum í gærkvöldi. Ljóst var að bæði lið voru í hefndarhug því KFA glutraði niður þriggja marka forystu gegn KA2 um síðustu helgi og á sama tíma fengu Magnamenn slæma útreið gegn Þórsurum.
Eftir mikla baráttu og jafnræði með liðunum voru það Magnamenn sem fóru með sigur af hólmi, 1-0. Leikurinn fór fjörlega af stað og voru Magnamenn sterkari aðilinn á upphafsmínútunum. Það skilaði árangri snemma því strax á 8. mínútu dró til tíðinda. Það var enginn annar en Guðni Sigþórsson sem skoraði eina mark leiksins. Guðni var þarna að leika sinn fyrsta leik í Magnatreyjunni eftir að hafa snúið aftur til félagsins frá Þrótti Vogum og gat varla óskað sér betri endurkomu. Markið kom eftir góða sókn Grenvíkinga sem byrjuðu leikinn af miklum krafti.
Eftir því sem leið á leikinn fóru leikmenn KFA að finna taktinn betur. Þeir sóttu í sig veðrið, en vörn Magna stóð þétt fyrir. Þrátt fyrir fínar sóknir beggja liða og mikið jafnræði tókst hvorugu liðinu að bæta við mörkum og lokatölur því 1-0 fyrir Magna.
Myndir: Þorsteinn Stefán Jónsson



























































