Nú þegar jólin eru handan við hornið er komið að síðustu leikjunum þetta árið. Framundan eru 6 leikir til að fullkomna íslenska fótboltaárið 2025.
Á föstudagskvöldinu fara tveir leikir fram í Boganum. Fyrri leikurinn hefst klukkan 19:00 þegar KFA og Magni mætast í B riðli A deildar. Heyrst hefur að Austfirðingar ætli að leggja niður vinnu á föstudag og mæta í Bogann í jólaskapi. Bæði lið munu leika í 2. deild á komandi sumri og því spennandi að sjá hvar þau standa gagnvart hvort öðru.
Seinni leikurinn hefst svo klukkan 21:00 þegar lið KF mætir KA 3 í A riðli B deildar. KA 3 koma sjóðheitir í leikinn eftir góðan sigur gegn Þór 4 en þetta verður fyrsti leikur KF í riðlinum.
Á laugardaginn fara svo tveir leikir fram í A riðli A deildar. Klukkan 12:30 á Greifavellinum fer fram leikur KA og Þórs 2. Með sigri og hagstæðum úrslitum í hinum leik riðilsins geta KA menn tryggt sér sigur í riðlinum. Þórsarar munu eflaust vilja koma í veg fyrir allt slíkt.
Á Dalvíkurvellir mæta svo Dalvíkingar liði Völsungs og hefst sá leikur klukkan 13:00. Dalvíkingar fengu skell gegn spræku liði KA í fyrsta leik á meðan Völsungar náðu í stig gegn Þór 2 þar sem Elfar Árni skoraði eina mark Húsvíkinga eftir að hafa leikið í miðverði allan leikinn.
Við lokum svo helginni á sunnudaginn með tveimur leikjum og fara þeir báðir fram í Boganum.
Klukkan 15:00 tekur lið Þórs 3 gegn Hetti frá Egilsstöðum og er sá leikur í B riðli B deildar. Fyrir leikinn situr Höttur á toppi riðilsins með jafn mörg stig og Hamrarnir. Með sigri geta þeir komið sér vel fyrir í riðlinum en á sama tíma þarf lið Þórs á sigri að halda vilji þeir eiga möguleika á efsta sætinu.
Klukkan 17:00 hefst svo loka leikurinn þetta árið þegar stelpurnar í Dalvík mæta liði Tindastóls. Þetta er fyrsti leikur stólanna í Kjarnafæðimótinu þetta tímabilið. Stelpurnar úr Skagafirði mæta með nýjan þjálfara, Svanberg Óskarsson, en hann tók við liðinu af Halldóri Jóni, betur þekktur sem Donni, núna í nóvember. Stelpurnar í Dalvík áttu erfiðan fyrsta leik þegar þær töpuðu sannfærandi fyrir liði Þórs/KA. Munu þær vilja sýna að það var ekki það sem koma skal hjá þeim í Kjarnafæðimótinu.
Við hvetjum alla til að skella sér á þessa síðustu fótboltaleiki árið 2025 og kveðja árið með stæl.
