KF sigur í fyrsta leik

KF og KA3 mættust í hálfgerðum miðnæturleik í Boganum í gærkvöld. Þótt KA-menn hafi stjórnað spilinu framan af, reyndust KF-menn hlutskarpari þegar á leið og unnu að lokum öruggan 4-1 sigur. Leikurinn fór rólega af stað fyrstu 20 mínúturnar. KA3 voru meira með boltann en leikmenn KF voru vel skipulagðir í sínum varnarleik og gáfu fá færi á sér.

Það var því gegn gangi leiksins á 27. mínútu að KF náði forystunni. Eftir misheppnaða sendingu í varnarlínu KA-manna komst Ljuba Delic í boltann og lét vaða af um 40 metra færi og boltinn sveif í netið – hreint út sagt stórkostlegt mark. KA3 lét markið ekki á sig fá og hélt áfram að spila vel. Uppskeran kom á 31. mínútu þegar liðið fékk vítaspyrnu. Mikael Arnarsson steig á punktinn en Jovon Sample markvörður varði. Dómari leiksins mat það hinsvegar svo að leikmenn KF hefðu verið komnir inn í vítateig og spyrnan var því endurrekin og jafnaði Mikael þá metin í 1-1, sem voru hálfleikstölur.

KF-menn mættu mun grimmari til leiks í síðari hálfleik. Þeir voru talsvert sterkari aðilinn á vellinum, héldu boltanum vel og sóttu stíft. Á 57. mínútu skilaði það sér þegar Marinó Snær Birgisson kom KF aftur yfir, 2-1. Þegar leikurinn var að renna út innsigluðu KF-menn sigurinn. Marinó Snær Birgisson var aftur á ferðinni á 89. mínútu með sínu öðru marki og á 91. mínútu kórónaði Jóhannes Helgi Alfreðsson góðan sigur með fjórða markinu.

Myndir: Þorsteinn Stefán Jónsson