Lokaumferð Kjarnafæðideildarinnar 2018 – Æskan lyfti bikarnum

Kjarnafæðideildinni 2018 lauk með tíundu og síðustu umferð sumarsins í kvöld. Ekki tókst að manna lið FC Samba svo liðið varð að gefa sinn leik gegn FC Mývetningum.

Héðinn FC 1 – 9 Æskan

Leikur Æskunnar og Héðins FC var nokkuð jafn framan af. Æskan komst yfir með marki frá Ingólfi Stefánssyni en einungis tveimur mínútum síðar jafnaði Viktor Freyr Heiðarsson metin fyrir Héðin FC. Undir lok fyrri hálfleiks skoruðu þeir Haraldur Örn Hansen og Egill Örn Gunnarsson fyrir Æskuna og staðan því 3-1 í hálfleik. Í síðari hálfleik kórónaði Æskan frábært sumar með því að bæta við 6 mörkum. Gunnar Þórir Björnsson og Ruben Raes skoruðu báðir tvö mörk, Haraldur Örn Hansen bætti við sínu öðru marki og Bjarki Kristjánsson skoraði eitt. Leiknum lauk því með glæsilegum 9-1 sigri Æskunnar, sem er verðugur Kjarnafæðideildarmeistari ársins 2018.

FC Böggur 4 – 4 FC Heavyweight

FC Böggur og FC Heavyweight mættust í leik sem reyndist frábær skemmtun. Leikurinn þróaðist á þann veg að FC Böggur hélt boltanum vel og stjórnaði leiknum mest allan tímann. FC Heavyweight beitti aftur á móti stórhættulegum skyndisóknum. Birgir Þór Þrastarson kom FC Böggur yfir eftir 14 mínútna leik og aðeins tveimur mínútum síðar tvöfaldaði Karl Ólafur Hinriksson forystuna. Staðan í hálfleik var 2-0. Ekki voru liðnar nema þrjár mínútur af síðari hálfleik þegar Karl Ólafur Hinriksson bætti við öðru marki sínu og þriðja mark FC Böggur – og gætu margir hafa haldið að þegar þarna væri komið við sögu væri formsatriði fyrir FC Böggur að klára leikinn. Annað kom heldur betur á daginn, því níu mínútum síðar hafði FC Heavyweight jafnað leikinn. Heiðar Andri Gunnarsson skoraði tvívegis, á 30. og 35. mínútu, og Kristján Þorvaldsson jafnaði á 37. mínútu, 3-3. Birgir Þór kom FC Böggur í 4-3 á 39. mínútu, en þrautseigt lið FC Heavyweight neitaði að gefast upp og það var varnarjaxlinn Hilmar Örn Gunnarsson sem jafnaði leikinn tveimur mínútum fyrir leikslok. Liðin sættust á skiptan hlut og lokatölurnar 4-4 í æsispennandi fótboltaleik.

Æskan fór taplaus í gegnum Kjarnafæðideildina 2018 með 28 stig af 30 mögulegum og sigraði deildina með afgerandi hætti. KDN óskar Æskunni innilega til hamingju með sigurinn. Markahæsti leikmaður mótssins var Karl Ólafur Hinkriksson í FC Böggur, en hann skoraði 9 mörk í sumar.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *