Kjarnafæðimótið 2019 hefst á laugardaginn

Knattspyrnudómarafélag Norðurlands mun líkt og undanfarin ár standa fyrir æfingamóti meistaraflokksliða karla á Norðurlandi í upphafi ársins 2019. Þar sem þátttökuliðunum fjölgar að þessu sinni úr 11 í 12 eykst leikjaálagið sem aftur hefur orðið til þess að ákveðið hefur verið að spila fyrstu leiki mótsins núna í desember, en eftir sem áður fara flestir leikir mótsins fram í janúar.

Liðunum er skipt niður í tvo riðla í samræmi við stöðu liðanna innan Íslandsmóts KSÍ. Í riðli A leika KA, KA2, Leiknir F, Magni, Völsungur og Þór. Í riðli B leika Dalvík/Reynir, Höttur, KA3, KF, Tindastóll og Þór 2. Það lið sem sigrar A-riðil mótsins verður Kjarnafæðimeistari 2019. KA-menn eru ríkjandi meistarar eftir að hafa unnið Kjarnafæðimótið 2018 á markatölu.

KDN og Kjarnafæði hafa nýlokið við að framlengja samstarfssamning sinn til ársins 2021, og því er ljóst að mótið mun bera hið glæsilega nafn Kjarnafæðimótið næstu þrjú ár til viðbótar. KDN vill þakka Kjarnafæði fyrir gott og árangursríkt samstarf undanfarin ár og hlakkar til mótsins sem er framundan.

Opnunarleikur mótsins fer fram laugardaginn 8. desember klukkan 14:15 en þá tekur Magni á móti KA2. Hinn leikur helgarinnar fer fram að honum loknum klukkan 16:15, en þar mætir Dalvík/Reynir liði Þórs2. Leikir mótsins fara sem fyrr fram í Boganum (hugsanlega verður gerð ein undantekning á því í janúar, en það verður þá auglýst sérstaklega) og er sem fyrr ókeypis inná leikina fyrir áhorfendur.

KDN.is mun eftir sem áður birta umfjallanir um alla leiki mótsins og halda utan um bæði stigatöflur og lista yfir markahæstu leikmenn.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *