Umfjallanir um leiki 4. umferðar

Æskan og FC Böggur mættust í miklum baráttuleik. Æskan var sterkari aðilinn framan af leik og kom Ingólfur Stefánsson Æskunni yfir með marki eftir glæsilega skyndisókn strax á 2. mínútu. Baldvin Rúnarsson tvöfaldaði svo forystu Æskunnar með marki beint úr aukaspyrnu á 17. mínútu. FC Böggur mættu mun sterkari til leiks í síðari hálfleik og voru betra liðið framan af hálfleiknum, án þess að skapa sér mikið af færum. Þegar leið á hálfleikinn jafnaðist leikurinn aftur og var stál í stál allt til enda. Árni Freyr Arngrímsson og Sigurður Haukur Valsson skoruðu sitt markið hvor fyrir liðin og lyktaði leiknum því með 3-1 sigri Æskunnar. Æskan hefur verið að spila vel á löngum köflum í sumar en leikirnir oft ekki fallið alveg með þeim – en í þetta skiptið uppskar liðið eins og það sáði.

UMF Sölvi er heldur betur dottið í gang eftir að hafa gert jafntefli í fyrstu umferðinni. Liðið mætti 603 og var talsvert sterkari aðilinn í leiknum. Leikmenn 603 nýttu sér sóknarþunga UMF Sölva í fyrri hálfleik með því að skora mark og fá vítaspyrnu, en brenndu af henni. Þegar uppi var staðið vann UMF Sölvi mjög sannfærandi sigur, 11-1. Ívar Bjarki Malmquist skoraði fyrir 603, en hann hefur nú skorað í öllum umferðunum fjórum sem leiknar hafa verið. Arnþór Gylfi Finnsson og Magnús Ingi Birkisson skoruðu báðir þrennu fyrir UMF Sölva, en þetta er önnur þrennan í röð hjá Magnúsi. Ottó Ernir Kristinsson skoraði tvö mörk. Þá skoruðu Benedikt Jóhannsson, Halldór Logi Valsson og Pétur Már Guðmundsson eitt mark hver.

Leikmenn Babúska mættu mjög ákveðnir til leiks gegn Hata og höfðu undirtökin allt frá upphafi leiksins. Lið Hata var vel skipulagt í varnarleiknum framan af leiknum, en þegar líða tók á leikinn opnaðist vörn Hata meira og sprækir leikmenn Babúska gengu á lagið. Leiknum lauk með 9-0 sigri Babúska, þar sem Þóroddur Einar Þórðarson setti þrennu, Bjarki Freyr Brynjólfsson og Kristján Loftur Helgason skoruðu báðir tvö mörk, og þeir Sveinbjörn Hjalti Sigurðsson og Pétur Veigar Karlsson gerðu sitt markið hvor.

FC Jattebrä og FC Sopalegir mættust í miklum markaleik. Leikurinn var jafn framan af og liðin skiptust á að sækja, en þegar leið á leikinn tóku FC Sopalegir yfirhöndina og héldu leiknum í öruggum höndum allt til loka. Niðurstaðan varð 7-3 sigur FC Sopalegra. Ales Mucha og Rafnar Smárason skoruðu báðir tvö mörk fyrir FC Sopalegir, en þeir Hrólfur Jón Flosason, Kristófer Andri Ólafsson og Rafnar Orri Gunnarsson eitt mark hver. Markahæsti leikmaður sumarsins til þessa, Alexander Arnar Þórisson, skoraði tvö af mörkum FC Jattebrä auk þess sem Alex Blöndal skoraði eitt. Liðin eru nú í 5. og 6. sæti, bæði með 6 stig, en FC Sopalegir hafa leikið einum leik færra.

Leikur KS og FC Mývetnings var nokkuð jafn allan tímann, og ekki hægt að segja að úrslitin hafi gefið rétta mynd af leiknum. Það var færanýtingin sem skildi á milli liðanna þegar uppi var staðið, en þar voru Mývetningar sérstaklega sterkir. Fyrsta mark FC Mývetnings í leiknum kom á 9. mínútu, en þá varð varnarmaður KS fyrir því óláni að fá boltann í sig eftir aukaspyrnu Mývetninga og þaðan fór boltinn í netið. Undir lok fyrri hálfleiks vann Reynir Hannesson boltann á miðjum vallarhelmingi KS og skoraði annað mark Mývetninga af miklu harðfylgi. Staðan í hálfleik var 2-0. Í síðari hálfleik var KS meira með boltann en FC Mývetningur dró sig aftar á völlinn. Gabríel Reynisson minnkaði muninn fyrir KS þegar 5 mínútur voru eftir af leiknum. Í kjölfarið stigu Mývetningar upp og kláruðu leikinn með tveimur mörkum í blálokin. Fyrra markið var sjálfsmark en það síðara skoraði Kristinn Haraldsson. Niðurstaðan varð því 4-1 sigur FC Mývetnings.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *