Umfjallanir um leiki 3. umferðar

Þriðja umferð Kjarnafæðideildarinnar var leikin í blíðskaparveðri í Boganum miðvikudagskvöldið 14. júní og eins og við var að búast var mikil spenna og nóg af mörkum.

FC Úlfarnir 010 tóku á móti Æskunni í hörkuleik, þar sem hvorugu liðinu langaði að tapa stigum. Úlfarnir spiluðu þennan leik skynsamlega; sátu aftarlega á vellinum og beittu skyndisóknum. Það var þannig sem fyrsta mark leiksins leit dagsins ljós – Æskan var í sókn á 9. mínútu og eiga gott marktækifæri, en Úlfarnir náðu boltanum og brunuðu í sókn. Þeir spiluðu boltanum vel á milli sín þar til Sigmar Þór Ármannsson skoraði með góðu skoti. Leikurinn gekk marka á milli næstu 15 mínúturnar með fullt af marktækifærum hjá báðum liðum, en aftur skoraði Sigmar fyrir Úlfarna á lokamínútu fyrri hálfleiks eftir vel útfærða sókn. Þegar 8 mínútur voru liðnar af síðari hálfleik skoraði Ingi Þór Stefánsson þriðja mark Úlfanna. Eftir þetta slökuðu Úlfarnir full mikið á og hleyptu Æskunni meira inn í leikinn. Æskan neitaði að gefast upp – Ingólfur Stefánsson og Árni Arnar Sæmundsson skoruðu sitt markið hvor og minnkuðu þannig muninn í 3-2 þegar 5 mínútur lifðu leiks. Lengra komst Æskan þó ekki og Úlfarnir unnu því góðan sigur.

FC Jattebrä hefur komið sterkt til baka eftir tapið í fyrstu umferðinni og unnu sinn annan leik í röð í kvöld með sannfærandi sigri gegn Babúska, 10-0. Staðan í hálfleik var 3-0 fyrir FC Jattebrä, en Babúska skapaði sér nokkur góð færi í hálfleiknum án þess að takast að koma boltanum inn fyrir línuna. Í síðari hálfleiknum bætti FC Jattebrä við 7 mörkum. Alexander Arnar Þórisson er búinn að vera magnaður í þessum fyrstu leikjum fyrir FC Jattebrä og skoraði fimm mörk í kvöld – annan leikinn í röð! Þá setti Úlfur Saraphat Þórarinsson 3 mörk og þeir Alex Blöndal og Arnór Ísak Guðmundsson skoruðu sitt markið hvor.

Ungu drengirnir í 603 virkuðu frískir í leiknum á móti Hata og sóttu grimmt í fyrri hálfleik. Það skilaði 603 tveimur mörkum, frá Ómari Má Ólafssyni og Ívari Bjarka Malmquist. Í seinni hálfleik komust leikmenn Hata betur inn í leikinn og skiptust liðin á að sækja. 603 bætti við tveimur mörkum, en Hlynur Viðar Sveinsson skoraði þau bæði. Leikmenn Hata voru aftur á móti sterkari aðilinn í síðari hálfleik og skoruðu fjögur mörk. Jason Wright skoraði þrennu og jöfnunarmark Garðars Þormars Pálssonar kom á stíðustu mínútu leiksins. Niðurstaðan varð því jafntefli, 4-4.

Tvö efstu lið deildarinnar, FC Mývetningur og FC Böggur, mættust í stórleik umferðarinnar. Þetta varð hörkuleikur – mikið um tæklingar og gul spjöld, auk þess sem markvörður Mývetninga fékk að líta rauða spjaldið fyrir að handleika knöttinn utan vítateigs. FC Böggur byrjuðu af miklum krafti og voru komnir í 2-0 eftir 10 mínútna leik, en það voru Davíð Örn Oddsson og Jón Björn Þorsteinsson sem skoruðu mörkin. Mývetningar tóku þá við sér, sóttu mikið í kjölfarið og uppskáru mark á 18. mínútu þegar Skarphéðinn Jónsson skoraði. Hálfleikstölur voru 2-1. Jón Þorláksson jafnaði leikinn fyrir Mývetninga strax í upphafi síðari hálfleiks, og eftir jöfnunarmarkið færðist enn meiri harka í leikinn. FC Böggur reyndist sterkari aðilinn á lokamínútunum og það voru Birgir Þór Þrastarson og Jón Björn Þorsteinsson sem skoruðu tvö mörk á lokamínútunum, 4-2 fyrir FC Böggur urðu lokatölur. Davíð Örn Oddsson var valinn maður leiksins.

FC Sopalegir og UMF Sölvi spiluðu skemmtilegan leik og eru bæði lið öflug og létt leikandi. UMF Sölvi byrjuðu betur og settu strax mark á fyrstu mínútu, en þar var að verki Tómas Ingi Hilmarsson. FC sopalegir sóttu í sig veðrið og vorum komnir í 3-1 yfir í hálfleik með mörkum frá Friðriki M. Ragnarssyni og Einari Má Þórólfssyni, en það þriðja var sjálfsmark. Í seinni hálfleik komu UMF Sölvi sterkir til leiks og skoruðu 4 mörk án þess að mótherjar þeirra næðu að svara fyrir sig. Leikurinn endaði því 3-5 og skoraði Magnús Ingi Birkisson 3 mörk fyrir UMF Sölva í síðari hálfleiknum, ein eitt marka UMF Sölva var sjálfsmark.

Fjórða umferð Kjarnafæðideildarinnar verður leikin fimmtudaginn 22. júní.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *