Umfjallanir um leiki 5. umferðar

Fimmta umferð Kjarnafæðideildarinnar bauð upp á spennu og fullt af mörkum, en alls voru 33 mörk skoruð í leikjunum fimm – sem gerir að jafnaði eitt mark á hverri 7 og hálfri mínútu.

Hati og FC Jattebrä mættust klukkan 19:00. Jattebrä byrjaði leikinn af krafti og skoruðu 4 mörk á fyrstu 12 mínútum leiksins, Alexander Arnar og Otto Fernando skoruðu 2 mörk hvor. Staðan í hálfleik 4-0. Seinni hálfleikurinn byrjaði rólega en á 32. mínútu skoraði Gunnar Árnason og staðan orðin 5-0. Alexander Arnar og Otto Fernando fullkomna síðan báðir þrennuna áður en Hati ná að klóra í bakann á 44. mínútu, með marki frá nýjum leikmanni liðsins, Elvari Guðmundssyni. Þá bættu Jattebrä í sóknina á nýjan leik og skora Hreiðar Hreiðarson og Gunnar Árnason áður en leik lýkur. Lokatölur 9-1 og þægileg 3 stig í hús hjá Jattebrä.

FC Böggur og Babúska áttust við í miklum baráttuleik, enda mikið undir í leik þessara sterku liða. Babúska voru sókndjarfari framan af leik, og tókst Jónasi Péturssyni að brjóta ísinn eftir laglega sókn, 1-0 fyrir Babúska. Eftir markið sóttu leikmenn FC Böggur meira og uppskáru að lokum vítaspyrnu. Skotið fór framhjá markinu, og slapp Babúska þar með við skrekkinn. Leikurinn var í járnum eftir þetta og tókst hvorugu liðinu að bæta við marki, svo afar mikilvægur sigur Babúska, 1-0, varð staðreynd.

Það var hart barist í viðureign FC sopalegir-KS. Jafnræði var með liðunum í upphafi leiks en KS að skapa sér betri færi. Þeir uppskera laglegt mark á 17. mínútu leiksins en þá fékk Marteinn Aðalsteinsson boltann fyrir utan teiginn og hamrar boltanum í markhornið. Eftir þetta byrjuðu KS að sækja meira og skoruðu annað mark á lokamínútu fyrri hálfleiks en það var Sævar Sævarsson sem klippti boltann í netið. KS menn byrjuðu seinni hálfleikinn af krafti og skorar Kristinn Freyr Ómarsson strax á 27 mínútu. FC Sopalegir ná ekki að skora þrátt fyrir góðar sóknir og góða spilamennsku á köflum. KS héldu hins vegar áfram að nýta sín færi og skorar Sævar Kárason laglegt mark á 32 mínútu. Það var síðan Halldór Logi Hilmarson sem gerði endanlega út um leikinn með marki sínu á 44. mínútu. Lokatölur 5-0 fyrir KS í algjörum baráttuleik.

603 og FC Úlfarnir 010 mættust í leik sem reyndist sá fjörugasti í þessari umferð, í víðri merkingu þess hugtaks. Hægt væri að skrifa langa grein um það hvernig þessi leikur gekk fyrir sig, en til að gera langa sögu stutta höfðu Úlfarnir betur að lokum 6-5, eftir að hafa verið 2-1 yfir í hálfleik. Hlynur Viðar Sveinsson átti stórleik fyrir 603 og skoraði 4 mörk, auk þess sem Eiríkur Fannar Ásgeirsson skoraði eitt mark. Hjá Úlfunum skoraði Ingi Þór Stefánsson þrennu, Kamil Dyszy tvö mörk og Símon Símonarson 1. Undir lok leiksins hitnaði heldur betur í kolunum, en bæði Ívar Bjarki Malmquist leikmaður 603 og Guðjón Óli Birgisson leikmaður Úlfanna fengu að líta rauða spjaldið. Einungis 6 leikmenn voru inná í hvoru liði þegar leiknum lauk, en það voru sem fyrr segir FC Úlfarnir 010 sem höfðu betur í þessum svakalega leik, 6-5.

Síðasti leikur dagsins var viðureign FC Mývetnings og UMF Sölva. Leikurinn var rólegur framan af en Mývetningar voru þó heldur sókndjarfari. Sigurður Sveinn Jónsson kom Mývetningum yfir, en við það tóku leikmenn UMF Sölva við sér. Þeir komu til baka strax í fyrri hálfleik með því að skora tvö mörk og leiddu því í hálfleik, 2-1. Í síðari hálfleik var UMF Sölvi sterkari aðilinn og tókst að bæta við þremur mörkum. Tómas Ingi Hilmarsson skoraði þrennu fyrir Sölva, en þeir Arnþór Gylfi Finnsson og Ottó Ernir Kristinsson skoruðu eitt mark hvor. UMF Sölvi sigraði því FC Mývetning í þessum síðasta leik umferðarinnar með fimm mörkum gegn einu.

Staðan í deildinni er orðin gríðarlega spennandi eftir þessa fimmtu umferð. UMF Sölvi er eina ósigraða liðið í deildinni og hefur 10 stig á toppi deildarinnar. Í kjölfarið fylgja fimm lið með 9 stig hvert, en það eru FC Úlfarnir 010, FC Jattebrä, FC Böggur, FC Mývetningur og Babúska.

Hægt er að sjá stöðuna í deildinni hér: http://kdn.is/?page_id=609
Lista yfir markaskorara í deildinni má sjá hér: http://kdn.is/?page_id=628

Vegna Pollamóts og N1-mótsins verður ekki leikið í næstu viku. Næsta umferð fer því fram fimmtudaginn 13. Júlí.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *