Umfjallanir um leiki 6. umferðar

6. umferð Kjarnafæðideildarinnar fór fram í Boganum í kvöld. Topplið UMF Sölva tók á móti Hata, og reyndist það vera leikur kattarins að músinni. Lið Sölva byrjaði leikinn af krafti og gerði útum leikinn í fyrri hálfleik. Lokatölur urðu 21-0. Pétur Már Guðmundsson skoraði 7 mörk, Magnús Ingi Birkisson og Ottó Ernir Kristinsson 4 mörk hvor og loks skoruðu þeir Benedikt Jóhannsson, Halldór Logi Valsson og Tómas Ingi Hilmarsson 2 mörk hver.

Æskan byrjaði vel á móti Babúska og komst yfir með marki Ingólfs Stefánssonar strax á 3. mínútu leiksins. Egill Örn Gunnarsson tvöfaldaði forystu Æskunnar á 16. mínútu og staðan í hálfleik var 2-0. Það var svo maður leiksins, Ingólfur Stefánsson, sem fullkomnaði þrennu sína með tveimur mörkum í síðari hálfleik, og lokatölur urðu því 4-0 fyrir Æskuna. Ingólfur hefur verið í lykilhlutverki hjá Æskunni í allt sumar, en honum hefur tekist að skora í öllum fimm leikjum Æskunnar á tímabilinu.

Leikmenn KS mættu mjög ákveðnir til leiks gegn 603, og skoruðu 4 mörk á fyrstu 9 mínútunum. Eftir þetta var róðurinn þungur hjá 603 sem náði aldrei að vinna sig til baka inn í leikinn, en honum lauk með 14-0 sigri KS. Halldór Logi Hilmarsson var maður leiksins og skoraði 6 mörk. Kristinn Freyr Ómarsson skoraði þrennu og Sævar Örn Kárason tvö mörk. Þá skoruðu Hilmar Þór Hreiðarsson Kristófer Þór Jóhannsson og Sindri Ólafsson eitt mark hver.

Leikur FC Jattebrä og FC Úlfanna 010 reyndist hin mesta skemmtun. Einungis 8 leikmenn FC Jattebrä voru á skýrslu í leiknum, en þeir létu það alls ekki á sig fá þótt þeir fengju færri og styttri hvíldir en leikmenn Úlfanna. Valþór Atli Guðrúnarson kom Úlfunum yfir strax á 1. mínútu leiksins, en Elmar Þór Aðalsteinsson jafnaði leikinn fyrir FC Jattebrä á 20. mínútu. Liðin gengu því jöfn til hálfleiks. Eftir 10 mínútna leik í síðari hálfleik kom Valþór Úlfunum yfir að nýju. Alexander Arnar Þórisson, markahæsti leikmaður Kjarnafæðideildarinnar til þessa, jafnaði svo leikinn fyrir Jattebrä á 40. mínútu. Allt stefndi í jafntefli – en Valþór Atli var ekki á því máli. Hann gerði sér lítið fyrir og fullkomnaði þrennuna með sigurmarki á síðustu mínútu leiksins. Niðurstaðan varð því gríðarlega mikilvægur 3-2 sigur Úlfanna.

FC Sopalegir og FC Mývetningar mættust í síðasta leik kvöldsins. Mývetningar voru sterkari aðilinn í fyrri hálfleik, en Konráð Vilhjálmsson kom Mývetningum yfir á 10. mínútu. Hjörtur Gylfason tvöfaldaði forystu Mývetninga á 33. mínútu. Stefán Jón Sigurgeirsson kom FC Sopalegum aftur inn í leikinn á 46. mínútu með því að minnka muninn í 2-1. Það var svo Konráð Vilhjálmsson sem kláraði leikinn fyrir Mývetninga með því að skora síðasta mark leiksins á lokamínútu leiksins. Lokatölur 3-1 fyrir Mývetninga.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *