KA2 taka 3.sætið í Kjarnafæðimótinu

Leikið var um þriðja sætið í Kjarnafæðimótinu í Boganum í kvöld. Áttust þar við lið KA2 og Þórs2 í fjörugum og skemmtilegum leik.

Bæði lið stiltu upp sínum sterkustu 2.flokksliðum og úr varð hörku leikur. Sindri Sigurðsson kom KA yfir eftir tíu mínútna leik en Haukur Leó Þórðarson jafnaði fyrir Þórsara á 23.mínútu. Sverrir Páll Ingason kom þeim svo yfir á 30.mínútu og Atli Þór Ingason skoraði þriðja mark Þórsara á 35.mínútu. Þórsarar skoruðu svo sjálfsmark á 38.mínútu og staðan í hálfleik 3-2 fyrir Þór. Breki Hólm Baldursson jafnaði leikinn með fallegu skallamarki á 61.mínútu og KA menn sóttu án afláts að marki Þórsara það sem eftir lifði leiks en komu boltanum ekki yfir línuna.

Var því gripið til vítaspyrnukeppni þar sem KA menn reyndust sterkari og unnu að lokum 7-6 sigur. Við óskum KA2 innilega til hamingju með 3.sæti mótsins