KF í 2.sæti eftir sigur á Völsungi

Tveir leikir fóru fram í Kjarnafæðimótinu í dag, einn leikur í kvennadeild og einn í A deild karla. Í kvennadeildinni mættust Þór/KA2 og Völsungur. Leikurinn var sextán mínútna gamall þegar Hildur Anna Birgisdóttir skoraði fyrir Akureyringa og staðan 1-0 í hálfleik. Eva S Dolina-Sokolowska kom inná hjá Þór/KA í hálfleik og var ekki lengi að láta til sín taka. Hún skoraði strax á 50. mínútu og var svo aftur á ferðinni fimm mínútum síðar og staðan orðin 3-0 fyrir Þór/KA. En þær Húsvísku neituðu að gefast upp og á 72. mínútu skoruðu Þór/KA sjálfsmark og við það tvíefldust Völsungsstúlkur og sóttu vel að marki Þór/KA. Ólína Helga Sigþórsdóttir skoraði aftur fyrir Völsung á 84. mínútu og spenna komin í leikinn. Fleiri urðu þó mörkin ekki og sigur Þór /KA staðreynd 3-2.

Kl 17 mættust svo í A deild karla Völsungur og KF. Leikurinn var hinn fjörugasti og hin besta skemmtun. Sævar Þór Fylkisson kom KF yfir á 17. mínútu en Jakob Gunnar Sigurðsson jafnaði fyrir Völsung á 35. mínútu. Það dugði þó skammt því Sævar skoraði aftur á 41. mínútu og þannig stóðu leikar er flautað var til leikhlés. Ljubomir Delic kom inn í lið KF í hálfleik eftir gott vetrarfrí og skoraði á 57. mínútu og staðan orðin 3-1 fyrir KF. Völsungar sóttu stíft á síðustu mínútum leiksins og skoruðu KF menn sjálfsmark á 86. mínútu eftir að Kifah Mourad leikmaður Völsungs var búinn að hnoða sér í gegnum alla vörn KF og kom boltanum í netið með viðkomu í leikmanni KF. Lengra komust Húsvíkingar þó ekki þrátt fyrir að sækja stíft og KF sigraði leikinn 3-2.