Leikur tveggja hálfleika

Einn leikur fór fram í Kjarnafæðimótinu í kvöld en leik KA2 og Samherja sem vera átti á KA vellinum var frestað vegna veðurs.

Í Boganum áttust hinsvegar við lið KA sem leikur í Bestu deildinni og KFA sem leikur í 2.deild. KA tefldi fram sínu sterkasta liði og voru erlendir leikmenn liðsins mættir til leiks. Leikurinn var hin besta skemmtun fyrir þá sem lögðu leið sína í Bogann þetta föstudagskvöld. Framan af var ekki hægt að sjá að KA spilaði tveim deildum ofar en Austfirðingar og var leikurinn jafn. Elfar Árni Aðalsteinsson kom KA yfir með marki á 11. mínútu en Þór Sigurjónsson jafnaði metin fyrir KFA á 27. mínútu og þannig stóðu leikar í hálfleik.

Hálfleiksræða Hadda hefur greinilega skilað sér vel því Elfar Árni kom KA yfir á nýjan leik á 50. mínútu og Hallgrímur Mar Steingrímsson skoraði þriðja mark KA úr vítaspyrnu eftir að leikmaður KFA braut klaufalega af sér. Þá var komið að Harley Willard, sem mætti til Akureyrar í fyrradag eftir vetrarfrí. Hann skoraði þrennu á mínútum 54, 70 og 72 og mætir greinilega vel undirbúinn til leiks. Fleiri urðu mörkin ekki og úrslitin 6-1 sigur KA.