Þór og KA áttust við í stórleik dagsins í Kjarnafæðimótinu í dag. Fyrri hluta fyrri hálfleiks þreifuðu liðin fyrir sér, KA-menn voru meira með boltann en hvorugt liðið skapaði sér marktækifæri. Til tíðinda dró á 27. mínútu þegar varnarmaður Þórs handlék knöttinn innan eigin vítateigs og Þóroddur Hjaltalín Jr. dómari leiksins dæmdi umsvifalaust vítaspyrnu. Vítaspyrna Elfars Árna Aðalsteinssonar var alveg útvið stöng, en Aron Birkir Stefánsson í marki Þórs gerði sér lítið fyrir og varði spyrnuna. Lítið var um marktækifæri í fyrri hálfleiknum og staðan í hálfleik markalaus.
KA-menn byrjuðu síðari hálfleikinn af krafti og sköpuðu sér hættulegt marktækifæri á 47. mínútu þegar Elfar Árni skallaði boltann yfir af markteig eftir fyrirgjöf. Litlu munaði að Bjarki Þór Viðarsson kæmi Þórsurum yfir á 60. mínútu þegar hann fékk dauðafæri innan vítateigs KA, en Aron Dagur Birnuson markvörður KA sá við honum. Á 65. mínútu gerðust KA-menn brotlegir innan vítateigs og vítaspyrna því dæmd. Ármann Pétur Ævarsson steig á punktinn og skoraði af öryggi, 1-0 fyrir Þór. Þegar um 10 mínútur voru eftir af venjulegum leiktíma áttu KA-menn góða sókn sem endaði með fyrirgjöf þar sem Frosti Brynjólfsson var réttur maður á réttum stað, og skallaði boltann í netið. Staðan því orðin 1-1. KA-menn fengu tvö kjörin tækifæri til að skora sigurmark undir lok leiksins. Fyrst slapp Frosti Brynjólfsson einn innfyrir vörn Þórs en Aron Birkir varði frá honum. Uppúr þeirri sókn fékk KA hornspyrnu og skölluðu fyrirgjöfina í þverslá Þórsara. Liðin sættust því á skiptan hlut, 1-1. Liðin eru jöfn að stigum á toppi riðils 1 með 10 stig hvort, en KA-menn hafa betra markahlutfall. Það er því ljóst að úrslit mótsins ráðast í síðustu umferðinni um næstu helgi.
Maður leiksins: Aron Birkir Stefánsson (Þór)
Tölfræði (Þór-KA)
Brot 16-15
Skot 7-15
Á mark 2-5
Hornspyrnur 2-9
Rangstaða 0-2
Þór 1 – 0 KA
1-0 66’ Ármann Pétur Ævarsson (Víti)
1-1 80’ Frosti Brynjólfsson