Gunnar Örvar tryggði Magna sigur á Leikni í blálokin

Magni frá Grenivík og Leiknir frá Fáskrúðsfirði léku í Kjarnafæðismóti KDN föstudagskvöldið 26. janúar. Leikurinn fór nokkuð rólega af stað en Magni átti stangarskot á 4. mínútu og á 8. mínútu fengu þeir dauðafæri eftir fyrirgjöf en boltinn vildi ekki í markið. Svona hélt fyrri hálfleikurinn áfram með svipuðum hætti. Magni sótti heldur meira en Leiknir sótti hratt þegar þeir fengu tækifæri til þess. Markmaður Leiknis, Robert Winogrodzki, var gríðarlega öruggur og með góð inngrip. Á 27. mínútu náði Leiknir fyrst að koma góðu skoti á markið en það var vel varið.
Rétt fyrir hálfleik dró til tíðinda en þá lenti Steinþór, markmaður Magna, í samstuði við sóknarmann Leiknis er hann sló boltann frá fyrirgjöf og féllu þeir báðir við. Boltinn féll út í teiginn og Unnar Ari Hansson renndi honum snyrtilega í netið. Það verður að viðurkennast að þetta var nokkuð gegn gangi leiksins en Magni hefði átt að nýta fjölmörg færi sín betur í fyrri hálfleik. 1-0 í hálfleik fyrir Leikni.
Síðari hálfleikur var töluvert ólíkur þeim fyrri en Leiknismenn stjórnuðu honum meira og minna. Þeir léku af öryggi og sjálfstraustið virtist hafa aukist til muna. Ekki var samt mikið um opin færi. Þrjú gul spjöld fóru á loft í hálfleiknum. Sæþór Ívan Viðarsson, Leikni fékk það fyrsta á 59. mínútu fyrir grófan leik, Gunnar Örvar Stefánsson, Magna það næsta á 62. mínútu fyrir grófan leik og að síðustu fékk Darius Jankauskas spjald á 67. mínútu fyrir að stöðva vænlega sókn.
Leikurinn var annars prúðmannlega spilaður og það skorti ekkert á kurteisi milli liðanna þótt menn tækjust á af krafti í leiknum. Virkilega til fyrirmyndar svo ekki sé meira sagt. En á 78. mínútu dró til tíðinda og enn var það að einhverju leyti gegn gangi leiksins. Varnarmaður Leiknis steig á boltann og missti stjórn á honum. Gunnar Örvar Stefánsson nýtti sér það til hins ítrasta, stakk sér inn fyrir og skoraði örugglega. Staðan orðin 1-1 og við það færðist líf í leikinn og nú var sótt hratt á báða bóga. Það var síðan Gunnar Örvar sem var aftur á ferðinni á 87. mínútu. Þá fær hann stutta sendingu beint í fæturna og nær að komast inn fyrir varnarmann Leiknis, í skotstöðu og afgreiddi málið. Þetta reyndist sigurmarkið og Magnamenn fögnuðu 2-1 sigri. Ef tölfræði leiksins er skoðuð má segja að þessi úrslit hafi verið sanngjörn en þar sem Leiknismenn höfðu stjórnað seinni hálfleiknum að miklu leyti hljóta vonbrigði þeirra að hafa verið nokkur í leikslok.
Maður leiksins: Gunnar Örvar Stefánsson Magna

Magni 2 – 1 Leiknir F

45‘ 0-1 Unnar Ari Hansson
78‘ 1-1 Gunnar Örvar Stefánsson
87‘ 2-1 Gunnar Örvar Stefánsson

Tölfræði:

Magni – Leiknir
Brot: 10-12
Skot að marki: 16-7
Þar af á mark: 5-4
Hornspyrnur: 8-4
Rangstaða: 3-1

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *