Um KDN

Knattspyrnudómarafélag Norðurlands (KDN) var stofnað 22. apríl 1997. Þá hafði Knattspyrnudómarafélag Akureyrar (KDA) haldið uppi starfsemi um nokkurra ára skeið, en með stofnun KDN varð þannig til félag knattspyrnudómaradómara á öllu Norðurlandi.

Meðal verkefna félagsins er að halda utan um málefni knattspyrnudómara á félagssvæðinu, að halda uppi fræðslu- og kynningarstarfsemi fyrir dómara og að skipuleggja og leggja til dómara fyrir ýmsa knattspyrnuviðburði sem fram fara á félagssvæðinu á ári hverju. Allt frá árinu 2004 hefur KDN staðið fyrir æfingamóti fyrir meistaraflokkslið karla í knattspyrnu á Norðurlandi, sem fram hefur farið í janúar og febrúar ár hvert. Mótið hefur þannig verið liður í undirbúningi knattspyrnufélaga fyrir Íslandsmótið í knattspyrnu í vel á annan áratug. Þá hefur KDN einnig staðið fyrir utandeild í knattspyrnu á sumrin, þar sem áhugafólk um knattspyrnu sem ekki leikur í efstu deildum Íslandsmótsins getur einfaldlega stofnað lið og skráð sig til leiks. Þetta mót hefur svo sannarlega tekist vel og hefur fest sig í sessi sem stór viðburður fyrir fólk sem þykir gaman að taka þátt í skipulögðu knattspyrnumóti en æfir ekki og spilar fyrir félag sem tekur þátt í Íslandsmótinu í knattspyrnu. Eins hefur KDN í gegnum árin lagt til dómara í mörgum árlegum knattspyrnumótum – en nefna má N1 mót KA, Pollamót Þórs og Verðbréfamót Samtaka fjármálafyrirtækja sem dæmi.