Tindastóll og Völsungur mættust í riðli 1 í Kjarnafæðisdeild KDN. Leikurinn fór rólega af stað og liðin skiptust á að þreifa fyrir sér. Völsungar sóttu meira í upphafi og það var ekki fyrr en á 14. mínútu að Tindastóll komst nálægt marki þeirra. Í þeirri sókn fengu þeir aukaspyrnu rétt utan teigs en hún hafnaði í varnarvegg Völsungs og ekkert varð úr. Nokkrum mínútum síðar fékk Völsungur aukaspyrnu á svipuðum stað en hún fór langt yfir. Á þessum tíma sótti Tindastóll nokkuð í sig veðrið og höfðu í fullu tré við Völsung. Á 28. mínútu bar sókn Völsungs árangur en þá gaf Bjarki Baldvinson fyrir og Elvar Baldvinsson skoraði örugglega.
Á þeim tíma sem eftir stóð af fyrri hálfleik unnu Bjarki Baldvinsson og Guðmundur Óli Steingrímsson sér inn gul spjöld fyrir brot og var það síðara nokkuð ljótt. Fleiri ljót brot litu dagsins ljós þótt ekki væri tilefni til spjalda og hér mun því ekki koma nein setning um að leikurinn hafi verið prúðmannlega leikinn. Á síðustu mínútum fyrri hálfleiks gerði Tindastóll harða hríð að marki Völsungs en inn vildi boltinn ekki og hálfleiksstaðan 0-1.
Síðari hálfleikur byrjaði líkt og sá fyrri endaði. Tindastóll náði nokkrum góðum sóknum en markmaður Völsungs sá við þeim. Á 59. mínútu kemst Tindastóll gegnum vörn Völsungs og Arnar Ólafsson nær góðu skoti sem fer rétt utan við vinstra markhornið. Hættulegasta færi þeirra til þessa. Á 61. mínútu tekur Tindastóll aukaspyrnu vel utan vítateigs og Bjarki Már Árnason skallar boltann snyrtilega í netið og staðan skyndilega orðin jöfn 1-1.
En við þetta vaknaði Völsungur til lífsins. Á 66. mínútu skaut Elvar að marki, Hafþór Ingi, markvörður Tindastóls varði vel en boltinn féll fyrir Guðmund Óla sem skoraði af öryggi. Á 77. mínútu fékk Völsungur aukaspyrnu á vítateigsboganum sem Bjarki Baldvinsson gerði sér lítið fyrir og skoraði beint úr. Völsungur var ekki hættur og Rúnar Þór Brynjarsson bætti við fjórða markinu á 80. mínútu eftir fyrirgjöf. Á fyrstu mínútu uppbótartíma átti Tindastóll skot rétt yfir mark Völsungs en á næstu mínútu náði Guðmundur Óli að senda boltann til Elvars Baldvinssonar sem skoraði fimmta mark Völsungs og leikurinn endaði þannig 1-5.
Þessi sigur Völsungs var nokkuð stór miðað við gang leiksins því lengst af hélt Tindastóll vel aftur af sókn Völsungs og áttu sjálfir ágætis spil á köflum og voru bæði frískir og fljótir. En eins og tölur seinni hálfleiks gefa til kynna þá minnkaði mótstaða Tindastóls verulega þegar fór að líða á seinni hálfleikinn og það nýttu Völsungar sér vel.
Maður leiksins var fyrirliði Völsunga Bjarki Baldvinsson.
Tölfræði:
Tindastóll – Völsungur
Brot: 8-6
Skot að marki: 7-16
Þar af á mark: 2-4
Hornspyrnur: 4-7
Rangstaða: 3-0
Gul spjöld 1-3
Tindastóll 1 – 5 Völsungur
8‘ 0-1 Elvar Baldvinsson
61‘ 1-1 Bjarki Már Árnason
66‘ 1-2 Guðmundur Óli Steingrímsson
77‘ 1-3 Bjarki Baldvinsson
80‘ 1-4 Rúnar Þór Brynjarsson
90+2‘ 1-5 Elvar Baldvinsson