KA 3 1 – 2 Dalvík/Reynir
0-1 42’ Þröstur Jónasson
1-1 79’ Stefán Tulinius
1-2 89’ Ingvar Gylfason
Leikurinn byrjaði nokkuð fjörlega og KA 3 hafði yfirhöndina framan af. Lið þeirra var líklega næstum höfðinu lægra en Dalvíkur/Reynis en minnimáttarkenndin var engin hjá KA 3 og þeir léku boltanum lipurlega milli sín. Fátt var þó um viðburði fyrstu mínúturnar uns KA 3 átti fyrsta markskotið á 11. mínútu. Dalvík/Reynir vann sig smá saman inn í leikinn og bæði lið fengu færi á að skora. KA 3 á skot í vinkilinn á 34. mínútu en Dalvík/Reynir bætti sífellt í og á 42. mínútu kom fyrsta mark leiksins. Þá tók Fannar Gíslason aukaspyrnu við hægri brún vítateigs KA 3 og Þröstur Jónasson tók við sendingunni og afgreiddi í netið. Staðan í hálfleik 0-1 Dalvík/Reyni í vil.
Síðari hálfleikur var líkur þeim fyrri. Prúðmannlega leikið af báðum liðum, KA 3 meira með boltann en vörn Dalvíkur/Reynis sterk. Á 72. mínútu komst Gunnar Bergvinsson, leikmaður KA 3, einn innfyrir en skot hans fór rétt framhjá. Stuttu síðar bjargar Viktor, KA3 markvörður, sínum mönnum frá því að lenda tveimur mörkum undir með snörpu inngripi og stuttu síðar verður Elvar Óli, markvörður Dalvíkur/Reynis, að taka á öllu sínu við að stoppa sókn. Elvar Óli kom þó engum vörnum við á 79. mínútu þegar leikmaður nr. 11 hjá KA 3, Stefán Tulinius, fékk snyrtilega sendingu innfyrir vörn Dalvíkur/Reynis, keyrði upp að marki, gerði engin mistök og renndi boltanum nokkuð örugglega í markið.
Jöfnunarmarkið breytti leiknum og liðin skiptust á að sækja og bæði fengu hættuleg færi. Þegar fór að líða að lokum venjulegs leiktíma leit allt út fyrir jafntefli sem hefðu líklega verið sanngjörn úrslit. En þá fékk Dalvík/Reynir hornspyrnu. Leikurinn var stöðvaður til þess að skipta inná áður en spyrnan var tekin og hvort sem það var því um að kenna eða öðru misstu varnarmenn KA 3 einbeitinguna og Ingvar Gylfason skoraði sigurmarkið tiltölulega fyrirhafnarlítið. KA 3 fóru því stigalausir heim en geta verið ánægðir með frammistöðu sína því þeir sýndu bæði leikni og áræðni í leiknum og voru alls ekki síðri en keppnautar þeirra í Dalvík/Reyni.
Maður leiksins Kristinn Þór Björnsson Dalvík/Reyni.
Tölfræði:
KA3 – DalvíkÞ/Reynir
Hornspyrnur: 2-8
Leikbrot: 8-6
Skot að marki 10-9
Þar af á markið 5-3
Mörk: 1-2