Leikurinn byrjaði fjörlega og stax á fyrstu mínútu var Númi Kárason nærri sloppinn einn í gegn en Kristján Freyr Óðinsson braut á honum og uppskar gult spjald. Þórsarar voru ákveðnari framan af og á 12 mínútu fékk Gunnar Örvar Stefánsson dauðafæri en náði ekki að stýra boltanum á markið og setti hann yfir. Á 15 mínútu varð Ingi Freyr fyrir meiðslum á fæti eftir samskipti við Áka Sölvason og þurfti hann að yfirgefa völlinn. Það var töluverð spenna í leiknum eftir þetta og mikið um návígi milli manna en dómari leiksins náði að stýra þessu farsællega í höfn. Þórsarar voru áfram ívið sterkari og á 22. mínútu fékk Númi Kárason ágætis færi en honum tókst ekki heldur að hitta markið. Á 25. mínútu fengu KA 2 aukaspyrnu og sendu boltann inní teig þar sem boltinn féll fyrir Brynjar Inga Bjarnason eftir klafs og hann þrumaði boltanum í netið. Þarna kom góður kafli hjá KA og á 27. mínútu slapp Pétur Heiðar Kristjánsson einn í gegn um vörn Þórs en Steinþór varði mjög vel í marki Þórs. Ekkert markvert gerðist fram að leikhléi og staðan því 1-0 fyrir KA í hálfleik.
Í seinni hálfleik settu Þórsarar alla sína sterkustu menn inná og Jóhann Helgi skoraði strax á 47. mínútu. Þórsarar voru mun sterkari í seinni hálfleik og fengu nokkur góð færi til að skora en mark númer 2 kom ekki fyrr en á 60. mínútu þegar Sveinn Elías sendi frábæra sendingu inn fyrir vörn KA og Gunnar Örvar skoraði örugglega framhjá Aroni í marki KA. Á 71. mínútu var svo dæmt víti á KA og Ármann Pétur skoraði úr því af öryggi. Á 73. mínútu fékk Pétur Heiðar besta færi KA 2 í seinni hálfleik en Steinþór varði vel. Þórsarar kláruðu svo leikinn á 79. mínútu þegar Jónas Björgvin átti góða sendingu á Sveinn Elías sem þrumaði boltanum upp í þaknetið. Lokastaða öruggur 4-1 sigur fyrir Þór.
Áhorfendur 125
Maður leikssins. Steinþór Már Auðunsson (Þór)
25 mín. 0-1 Brynjar Ingi Bjarnason
47 mín. 1-1. Jóhann Helgi Hannesson
60 mín. 2-1 Gunnar Örvar Stefánsson
71 mín 3-1. Ármann Pétur Ævarsson
79 mín. 4-1. Sveinn Elías Jónsson