Tveir leikir fóru fram í Kjarnafæðimótinu í kvöld. Í A deild léku Þórsarar og Samherjar úr Eyjafjarðarsveit sem leika í 5.deild Íslandsmótsins. Ljóst var að leikurinn yrði Samherjamönnum erfiður en úr varð hin mesta skemmtun. Fannar Daði Malmquist Gunnarsson kom Þórsurum yfir á 7.mínútu og Sigfús Fannar Gunnarsson tvöfaldaði forskotið 12.mínútu. Fyrirliði Þórsara, Bjarki Þór Viðarsson skoraði þriðja markið á 20.mínútu og Ingimar Arnar Kristjánsson skoraði það fjórða á markamínútunni frægu og staðan orðin 4-0 í hálfleik. Það var ljóst í seinni hálfleik að þjálfari Samherja, Sigurður Doneys hefur lesið vel yfir sínum mönnum í hálfleik því eina mark seinni hálfleiks kom þegar Sigfús Fannar skoraði aftur fyrir Þórsara og í þetta skiptið á 73.mínútu. Lokatölur 5-0 sigur Þórs.
Í B deild tryggðu Þór3 sér sigur í deildinni með sigri á KA3 5-0. Þórsarar eru með mjög sprækt og öflugt lið og eru vel að sigrinum komnir. Þeir leiddu 2-0 í hálfleik með mörkum frá Bjarma Má Eiríkssyni og Kjartani Inga Friðrikssyni. Áfram héldu Þórsarar að leika KA menn grátt og í seinni hálfleik skoraði Bjarmi aftur á 49.mínútu og Tómas Bjarni Baldursson á 78.mínútu og svo aftur á 90.mínútu. Lokastaðan 5-0 fyrir Þór3.
Þór3 eru því sigurvegarar í B deild árið 2024 þrátt fyrir að eiga enn einn leik eftir. Við óskum þeim innilega til hamingju með verðskuldaðan sigur.