Kjarnafæðimótið hélt áfram í dag og voru þrír leikir spilaðir í þremur deildum. Allir unnust leikirnir með miklum yfirburðum og lítið um spennu.
Í fyrsta leik dagsins var leikið í kvennadeild og mættust þar Þór/KA og FHL/Einherji. Leikurinn var mikil einstefna Þórs/KA eins og við mátti búast enda lið austankvenna skipað kornungum leikmönnum FHL auk stelpum úr Einherja á Vopnafirði. Hulda Ósk Jónsdóttir skoraði þrennu í fyrri hálfleik fyrir Þór/KA. Það fyrsta úr vítaspyrnu á 13.mínútu, annað mark hennar kom á 29.mínútu og þrennan fullkomnuð á 36.mínútu. Í millitíðinni skoraði Karen María Sigurgeirsdóttir á 17.mínútu. Staðan því 4-0 í hálfleik. Sandra María Jessen kom heimakonum í 5-0 með marki á 63.mínútu og Margrét Árnadóttir skoraði svo á 69.mínútu. Agnes Birta Stefánsdóttir skoraði sjöunda og síðasta markið á 77.mínútu. Fleiri urðu mörkin ekki og 7-0 sigur Þórs/KA staðreynd.
Í A-deild áttust við Þór2 og Kormákur/Hvöt/Tindastóll. Búist var við spennandi leik sem hann og var framan af. Ingvi Rafn Ingvarsson þjálfari Kormáks/Hvatar skoraði fyrsta markið á 17.mínútu með fallegu skoti af 40 metra færi.Þórsarar jöfnuðu á 35.mínútu með marki frá Einari Frey Halldórssyni og rétt fyrir hálfleik kom Ingimar Arnar Kristjánsson fyrirliði þeim í 2-1 og þannig stóðu leikar í hálfleik. Ungir og sprækir Þórsarar settu svo í fluggír í seinni hálfleik og keyrðu hreinlega yfir Húnvetninga og Skagfirðinga. Ingimar Arnar skoraði aftur á 51.mínútu. Kristinn Bjarni Andrason skoraði svo á 60. og 75.mínútu og mikið farið að draga af gestunum. Atli Þór Sindrason skoraði og 85.mínútu og þremur mínútum síðar rak Egill Orri Arnarsson síðasta naglann í kistu gestanna þegar hann skoraði á 88.mínútu. Öruggur 7-1 sigur Þór2.
Undir kvöld var spilað í B-deild og áttust þar við lið KA4 og Þór3. Þórsarar voru mun sterkari aðilinn í leiknum og Bjarmi Már Eiríksson kom þeim í 1-0 á 15.mínútu leiksins. Aðeins þremur mínútum síðar kom Ingþór Bjarki Brynjólfsson þeim í 2-0 og þannig stóð í hálfleik. Tómas Bjarni Baldursson skoraði fyrir Þór á 70.mínútu og síðasta markið skoraði Viktor Smári Sveinsson á 83.mínútu. Öruggur sigur Þórsara 4-0.
Næstu leikir fara fram á miðvikudagskvöldið þegar Þór og Samherjar spila kl.18 og að þeim leik loknum eigast við KA3 og Þór3. Næsta helgi er svo full af skemmtilegum leikjum sem við munum segja frá þegar nær dregur. Meðfylgjandi eru myndir frá deginum auk mynda af leikskýrslum dagsins