Umfjallanir um 1. umferð Kjarnafæðideildarinnar

Hvorki fleiri né færri en 23 mörk voru skoruð í fyrstu umferð Kjarnafæðideildarinnar. Hér má sjá umfjöllun um leiki umferðarinnar.

Æskan 5-1 FC Böggur

Æskan og FC Böggur mættust í fyrstu umferð Kjarnafæðideildarinnar, en bæði þessi lið áttu góðu gengi að fagna í fyrra og ætla sér eflaust stóra hluti í sumar. Leikmenn Æskunnar voru sterkar framan af leik og komust yfir á 15. mínútu leiksins. Við það efldust leikmenn FC Böggur og fóru að sækja meira að marki Æskunnar. Sókn FC Böggur skilaði svo loks árangri á 21. Mínútu þegar Karl Ólafur Hinkriksson skoraði. Leikmenn Æskunnar svöruðu með marki fyrir hálfleik og voru hálfleikstölur 2-1. Í síðari hálfleik kláraði Æskan leikinn með þremur mörkum og vann að lokum sanngjarnan 5-1 sigur. Mörk Æskunnar í leiknum skoruðu þeir Bjarki Kristjánsson, Gunnar Þórir Björnsson, Jakob Atli Þorsteinsson, Sölvi Andrason og Viktor Andrésson.

FC Heavyweight 2-9 FC Samba

Hér voru tvö ný lið að mætast í Kjarnafæðideildinni. FC Samba, með Valþór Guðrúnarson fremstan í flokki, byrjuðu af miklum krafti og sóttu án afláts. Ekki voru liðnar nema 14 mínútur af leiknum þegar Valþór hafði skorað þrennu. Orri Þórsson lagaði stöðuna fyrir FC Heavyweight með því að skora fyrsta mark liðsins í mótinu á 20. mínútu leiksins. Hann fór upp vinstri vænginn, lagði boltann fyrir sig og hamraði hann upp í nærhornið – algjörlega óverjandi fyrir markvörð FC Samba. Hálfleikstölur voru 3-1, Samba í vil.

Í síðari hálfleik spiluðu leikmenn FC Samba frábæran fótbolta og skoruðu m.a. mark þegar einungis 20 sekúndur voru búnar af hálfleiknum, þrátt fyrir að þeir hefðu ekki byrjað með boltann. FC Samba skoraði 6 mörk í hálfleiknum gegn einu marki FC Heavyweight og lauk leiknum því með sannfærandi 9-2 sigri FC Samba. Valþór Guðrúnarson skoraði 4 marka FC Samba, Gunnar Björn Ólafsson og Brynjar Pálsson tvö mörk hvor og Ingi Þór Stefánsson eitt. Það voru þeir Orri Þórsson og Viktor Snær Guðlaugsson sem skoruðu mörk FC Heavyweight.

FC Mývetningur 6-0 Héðinn FC

Í þessum leik var mikið barist og lítið um færi í byrjun leiks. Mývetningar voru heldur sterkari aðilinn framan af, og náðu betri tökum á leiknum þegar leið á fyrri hálfleikinn. Markvörður Héðins FC átti hins vegar virkilega góðan leik og átti mikið af góðum markvörslum. Honum tókst þó ekki að koma í veg fyrir að Hjörtur Gylfason kæmi Mývetningum yfir, en hann skoraði með því að stýra boltanum í netið með kassanum. Eftir markið hertu Mývetningar tökin á leiknum og bættu við tveimur mörkum fyrir leikhlé. Staðan í hálfleik var því 3-0.

Mývetningar héldu boltanum vel í síðari hálfleik og sóttu áfram að marki Héðins. Fjórða mark Mývetninga kom á 37. mínútu, en nokkrum mínútum síðar misstu Mývetningar Konráð Vilhjálmsson, einn sinn besta mann, af velli með rautt spjald. Við þetta færðu leikmenn Héðins sig framar á völlinn og freistðu þess að saxa á forskot Mývetninga. Mývetningar nýttu tækifærið vel þegar svæði opnuðust í vörn Héðins og bættu við tveimur mörkum. Lokatölur voru því 6-0 fyrir FC Mývetning. Mörk þeirra skoruðu Brynjar Örn Arnarsson, Daníel Smári Magnússon, Elvar Goði Yngvason, Hjörtur Gylfason, Jón Þorláksson og Konráð Vilhjálmsson.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *