Öruggur sigur Þórs gegn Völsungi

Þór og Völsungur léku í kvöld í Kjarnafæðimótinu. Leikurinn fór frekar rólega af stað en á fjórðu mínútu kom samt skot í þverslá en þar var á ferðinni leikmaður Völsungs sem tók við fyrirgjöf á eigið mark með þessari niðurstöðu.

Fyrri hálfleikur var nokkuð jafn og hvorugu liðinu tókst að skora mark. Tvö gul spjöld fóru á loft, sitt hjá hvoru liðinu og líklega var besta marktækifærið þegar Bjarki Baldvinsson vippaði boltanum yfir markvörð Þórsara á 29. mínútu og þar endaði hann í þverslánni. En annars voru nokkrar hættulegar sóknir hjá Þór og flestar upp hægri kantinn þar sem Jakob Snær Árnason var í aðalhlutverki.

Síðari hálfleikur hófst á svipuðum nótum og sá fyrri hafði lengst af verið. Liðin skiptust á að sækja og á 48. mínútu áttu Völsungar hörkuskot í stöng. Strax í framhaldinu sóttu Þórsarar stíft og markmaður Völsunga varði vel á 49. mínútu og aftur á þeirri 50. Stuttu seinna hreinsuðu Völsungar á línu.
Það kom því ekkert sérstaklega á óvart þegar fyrsta mark leiksins kom á 56. mínútu þegar Jakob Snær Árnason afgreiddi boltann í netið eftir góða fyrirgjöf Páls Veigars Ingvasonar.

Á 63. mínútu fékk Þór aukaspyrnu rétt utan vítateigs Völsungs og Alexander Ívan Bjarnason gerði sér lítið fyrir og setti boltann fast í vinstra markhornið og staðan orðin 2-0 fyrir Þór.
Guðmundur Óli Steingrímsson og Bjarki Baldvinson, sem voru burðarásar í liði Völsungs, nældu sér báðir í gult spjald í síðari hálfleik fyrir brot. Guðmundur Óli fékk síðan beint rautt spjald á 75. mínútu fyrir orðbragð og leikmenn Völsungs því einum færri það sem eftir lifði leiks.

Eftir brottreksturinn var sigur Þórsara aldrei í hættu og þriðja markið kom á 81. mínútu þegar Guðni Sigþórsson nýtti tækifærið eftir úthlaup markvarðar Völsungs og lyfti boltanum af nokkru færi yfir varnarmenn og í autt markið.

Það fór síðan vel á því að Jakob Snær Árnason skoraði fjórða og síðasta mark leiksins á 89. mínútu eftir góða fyrirgjöf.

Það er óhætt að segja að sigur Þórsara hafi verið sanngjarn en mögulega nokkuð stór miðað við gang leiksins og Völsungar voru óheppnir að ná ekki að skora í leiknum.
Maður leiksins var Jakob Snær Árnason Þór.

Tölfræði: Þór – Völsungur
Hornspyrnur: 5-6
Brot: 9-7
Rangstöður: 2-1
Gul spjöld 1-3
Rauð spjöld 0-1

Þór 4 – 0 Völsungur

1-0 56’ Jakob Snær Árnason
2-0 64’ Alexander Ívan Bjarnason
3-0 81’ Guðni Sigþórsson
4-0 89’ Jakob Snær Árnason

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *