KA menn tóku strax völdin í leiknum en Stólarnir vörðust vel til að byrja með. Á 17. mínútu náði KA góðri sókn upp hægri vænginn sem endaði með flottri fyrirgjöf Steinþórs Freys Þorsteinssonar og óvaldaður Elfar Árni Aðalsteinsson hamraði boltann inn. Stuttu síðar björguðu Stólarnir á línu eftir að Daníel Hafsteinsson fékk færi í teignum. Á 30. mínútu komst Steinþór einn í gegn eftir frábæra sendingu frá Hallgrími Jónassyni en Atli varði vel í marki Tindastóls. Á 36. mínútu kom svo annað mark KA eftir að Ólafur Aron átti skot utan teigs sem breytti um stefnu af Elfari og Atli var varnarlaus í markinu. Elfar fullkomnaði svo þrennuna eftir frábæra sókn þar sem Hallgrímur Mar vippaði boltanum inná Sæþór sem renndi honum á Elfar fyrir miðju marki og hann lagði boltann í netið. Sæþór fékk svo dauðafæri eftir frábæran sprett hjá Steinþóri en hann hitti ekki boltann. Staðan 3-0 í hálfleik, KA með 13 marktilraunir en Tindastóll enga.
Í seinni hálfleik opnuðust svo allar flóðgáttir og KA bætti við 9 mörkum. Elfar bætti við tveimur í sitt safn, Sæþór skoraði tvö, Steinþór, Hrannar Björn, Bjarni Aðalsteins, Hallgrímur Mar og Áki Sölva skoruðu allir eitt mark hver. Leikurinn var algjör einstefna í seinni hálfleik en Tindastóll átti þó eina skottilraun sem fór þó hátt yfir markið. KA liðið skaut hinsvegar 18 sinnum að marki Tindastóls í síðari hálfleik. Það verður að segja eins og er að KA liðið lítur mjög vel út. Hrannar Björn og Steinþór frábærir á hægri vængnum, Hjörvar spennandi í vinstri bakverði með Hallgrím Mar síógnandi þar fyrir framan. Miðvarðarparið Guðmann og Hallgrímur Jónasson líta út fyrir að hafa spilað lengi saman og svo er Elfar óstöðvandi í teignum. Það verður spennandi að sjá liðið í Pepsideildinni í sumar.
Maður leiksins: Steinþór Freyr Þorsteinsson (KA)
KA 12 – 0 Tindastóll
1-0 17’ Elfar Árni Aðalsteinsson
2-0 36’ Elfar Árni Aðalsteinsson
3-0 38’ Elfar Árni Aðalsteinsson
4-0 49’ Sæþór Olgeirsson
5-0 56’ Sæþór Olgeirsson
6-0 64’ Steinþór Freyr Þorsteinsson
7-0 66’ Hrannar Björn Steingrímsson
8-0 69’ Elfar Árni Aðalsteinsson
9-0 74’ Bjarni Aðalsteinsson
10-0 84’ Hallgrímur Mar Steingrímsson
11-0 87’ Áki Sölvason
12-0 90’ Elfar Árni Aðalsteinsson