Leikmenn KA 2 mættu grimmari til leiks og voru með yfirhöndina fyrsta korter leiksins. Á 13. mínútu átti KA 2 hættulega aukaspyrnu inn að marki sem Halldór Ingvar Guðmundsson í marki KF varði út í teiginn, en Brynjar Ingi Bjarnason fylgdi vel á eftir og kom KA 2 í 1-0. Fimm mínútum síðar voru leikmenn KF óheppnir að jafna ekki metin, en skalli þeirra eftir hornspyrnu hafnaði í stönginni. Á 26. mínútu skoraði Birgir Baldinsson gott mark fyrir KA 2 eftir að hafa komist upp kanntinn, sótt inn að marki KF og vippað yfir Halldór í markinu. Einungis fjórum mínútum síðar kom Sæþór Olgeirsson KA-mönnum í 3-0 með marki af stuttu færi eftir klafs í vítateig KF. Undir lok hálfleiksins róaðist leikurinn nokkuð og KA 2 fór því með örugga forystu inn í hálfleik.
Á þriðju mínútu síðari hálfleiks áttu KA 2 fyrirgjöf fyrir mark KF, boltinn er lagður út og þar klárar Viktor Már Heiðarsson færið vel. 4-0 fyrir KA 2. Leikmenn KF bitu frá sér í kjölfarið. Tveimur mínútum eftir mark KA var Grétar Áki Bergsson réttur maður á réttum stað inni í vítateig KA 2 og skorar eftir klafs. Óhætt er að segja að leikurinn hafi verið prúðmannlega leikinn, og til marks um það kom fyrsta gula spjald leiksins ekki fyrr en á 70. mínútu. Smám saman fjaraði undan leiknum og að lokum varð 4-1 sigur KA 2 staðreynd.
Tölfræði (KA 2 – KF)
Skot 20 – 6
Á mark 11 – 4
Horn 6 – 3
Rangstæður 3 – 2
Brot 7 – 11
Maður leiksins: Bjarni Aðalsteinsson (KA 2) – stjórnaði miðjunni eins og herforingi
KA2 4 – 1 KF
1 – 0 13´ Brynjar Ingi Bjarnason
2 – 0 26‘ Birgir Baldvinsson
3 – 0 30´ Sæþór Olgeirsson
4 – 0 48´ Viktor Már Heiðarsson
4 – 1 50´ Grétar Áki Bergsson