Framan af leik var jafnræði með liðunum og liðin skiptust á að sækja. Á 10. mínútu átti Dalvík/Reynir góða sókn upp hægri kant, en fyrirgjöf tókst ekki nægjanlega vel svo sóknin rann út í sandinn. Á 12. mínútu var góð sókn hjá KF, sem endaði með skoti fyrir utan teig en var vel varið af markmanni Dalvíkur/Reynis. Þremur mínútum síðar átti KF aftur skot fyrir utan teig sem var varið í þverslá. Á 22. mínútu áttu Dalvík/Reynir sókn sem endaði með skalla yfir markið. Á 32. mínútu var sókn frá Dalvík/Reyni sem endaði í góðu skoti, rétt framhjá vinstra megin. Í framhaldinu skiptust liðin á að sækja án þess að skapa góð tækifæri. Á 44. mínútu átti Dalvík/Reynir skot rétt yfir markið. Þegar komið var á 2. mínutu uppbótartíma fyrri hálfleiks áttu KF gott skot sem varið var í slá og endaði boltinn afturfyrir. Það var því nóg af færum í fyrri hálfleik en staðan markalaus þegar liðin gengu til búningsherbergja.
Á fyrstu mínútu síðari hálfleiks fékk KF aukaspyrnu rétt utan við teig sem endaði rétt framhjá marki Dalvíkur/Reynis. Næstu mínútur sótti Dalvík/Reynir meira en KF átti hins vegar góðar skyndisóknir. Á 55. mínútu skoraði leikmaður nr. 11 hjá KF (nafn markaskorara vantar), eftir leiftursókn. Áfram hélt Dalvík/Reynir að sækja meira og á 58. mínútu bjargaði KF í horn eftir góða sókn frá heimamönnum. Enn sýndi Dalvík/Reynir meiri tilburði sóknarlega en jafnframt fór að færast óþarflega mikil harka í leikinn. Á 83. mínútu skapaði KF sér gott færi en skot fór í varnarmann Dalvíkur/Reynis og rétt framhjá. Á 2. mínútu uppbótartíma bar sókn Dalvíkur/Reynis loks árangur og endaði með góðu marki frá Fannari Daða Malmquist. Síðasta færi leiksins átti svo KF en skotið var hátt yfir markið. Leikurinn endaði því með nokkuð sanngjörnu jafntefli í leik þar sem Dalvík/Reynir virtist hafa yfirhöndina, sérstaklega í seinni háflleik, en KF átti hins vegar hættulegri færi.
Maður leiksins: Sveinn Margeir Hauksson
Dalvík/Reynir 1 – 1 KF
0-1 55’ (Markaskorara vantar)
1-1 90+2 Fannar Daði Malmquist