Hið árlega Kjarnafæðimót KDN hefst um helgina og stendur yfir fram í byrjun febrúar. Að þessu sinni skráðu 11 lið sig til leiks, einu liði fleira en fyrir ári síðan. Fyrirkomulag mótsins verður með þeim hætti að liðunum er skipt niður í tvær deildir eftir styrkleika samkvæmt Íslandsmóti KSÍ, þar sem öll lið í hvorum riðli um sig leika innbyrðis. Það lið sem hreppir efsta sæti riðils 1 (sterkari riðilsins) stendur uppi sem Kjarnafæðimótsmeistari 2018 – og því munu ekki fara fram sérstakir úrslitaleikir líkt og síðastliðin ár.
Í riðli 1 eru KA, Leiknir F, Magni, Tindastóll, Völsungur og Þór. Í riðli 2 eru Dalvík/Reynir, KA 2, KA 3, KF og Þór 2. Heimasíða KDN mun birta úrslit leikja mótsins, halda utan um stigatöflur og uppfæra lista með markahæstu leikmönnum mótsins. Eins verða birtar umfjallanir um leikina sjálfa.
Opnunarleikur mótsins er leikur Leiknis F og Völsungs á föstudaginn klukkan 21:00. Aðrir leikir helgarinnar eru sem hér segir:
Lau 15:00 KA – Magni
Lau 17:00 KA 3 – Dalvík/Reynir
Sun 14:00 Tindastóll – Leiknir F
Fyrir leik KA og Magna mun KDN skrifa undir samstarfssamning við Kjarnafæði í Boganum. Allir leikir mótsins fara fram í Boganum og verður aðgangur ókeypis fyrir áhorfendur. Dómarar KDN sjá um dómgæslu á mótinu.