Leikur KF og Fjarðabyggðar byrjaði fjörlega og sóttu liðin til skiptis fyrstu mínúturnar. Fyrsta alvöru færið kom á 6. mínútu þegar Valur Reykjalín Þrastarson skaut rétt yfir mark Fjarðarbyggðar, en á 15. mínútu átti leikmaður Fjarðabyggðar góðan skalla framhjá marki KF. Leikmenn KF gerðust aðgangsharðari við mark mótherjanna og á 28. mínútu skall boltinn í stönginni hjá þeim. Áfram hélt pressa KF og á 29. mínútu átti Ivanirson Silva Oliveira gott skot sem hafnaði í marki Fjarðabyggðar. Ekki liðu nema tvær mínútur þar til KF hafði skorað aftur eftir hraða sókn, en það mark skoraði Grétar Áki Bjarnason. Á 39. mínútu fékk KF gott færi til að bæta við marki en markvörður Fjarðarbyggðar varði þá skot frá markteig.
Í byrjun seinni hálfleiks héldu leikmenn KF áfram af sama krafti, og á 47. mínútu kom góð fyrirgjöf frá vinstri kanti sem Hilmar Símonarson afgreiddi skemmtilega í netið. Þegar leið á leikinn gáfu leikmenn KF aðeins eftir og austanmenn gengu á lagið og settu tvö mörk. Það fyrra skoraði Stefán Þór Eysteinsson á 77. mínútu eftir að boltinn hafði borist út í teiginn vinstra megin eftir hornspyrnu. Pálmi Þór Jónasson skoraði svo á 91. mínútu síðasta mark leiksins með góðu bogaskoti frá hægri. Heilt yfir var KF sterkara liðið í leiknum og átti betri færi til að bæta við mörkum heldur en Fjarðabyggð.
Maður leiksins: Loic Cédric Mbang Ondo (Fjarðabyggð)
1-0 29. mín Ivanirson Silva Oliveira
2-0 31. mín Grétar Áki Bergsson
3-0 47. mín Sjálfsmark
3-1 77. mín Stefán Þór Eysteinsson
3-2 90+1. mín Pálmi Þór Jónasson