Magni vann góðan sigur á KA

KA-menn og Magni áttust við í fyrri leik dagsins í A-riðli Kjarnafæðimótsins í dag. KA fékk gott færi strax á 3. mínútu sem fór forgörðum. Jóhann Þórhallsson, sóknarmaður Magna, slapp einn í gegnum vörn KA á 7. mínútu en Srdan Rajkovic, markvörður KA, braut á honum og vítaspyrna dæmd. Jóhann fór sjálfur á punktinn en hann skaut í stöng svo staðan var áfram markalaus. Um miðjan fyrri hálfleikinn þyngdist sókn KA-manna og fékk liðið fjögur góð færi á fimm mínútna kafla en tókst ekki að nýta sér þau. Fimm mínútum áður en flautað var til hálfleiks bætti Jóhann Þórhallsson svo upp fyrir misnotaða vítið. Hann átti skot fyrir utan vítateig sem söng í netinu án þess að Rajkovic kæmi neinum vörnum við. Staðan í hálfleik var 1-0 fyrir Magna.

Leikmenn KA mættu öflugir til síðari hálfleiks og áttu strax ágætis sóknir en tókst ekki að koma boltanum í mark Magna. Þegar 7 mínútur voru liðnar af síðari hálfleik var leikmanni Magna hrint í vítateig KA, og því aftur dæmd vítaspyrna. Í þetta skiptið skoraði Jóhann Þórhallsson af öryggi og kom Magna í 2-0. KA-menn reyndu allt hvað þeir gátu til að minnka muninn en leikmenn Magna vörðust vel og illa gekk að koma boltanum í netið. Á 89. mínútu leiksins minnkaði Hallgrímur Mar Steingrímsson muninn með góðu skoti úr teignum sem hafnaði í stöng og inn. Eftir þetta fékk Magni gott færi sem Rajkovic í marki KA varði, en fleiri mörk voru ekki skoruð og Magni vann því virkilega góðan sigur á Pepsideildarliði KA, 2-1.

Maður leiksins: Jóhann Þórhallsson (Magni)

0-1 40. mín Jóhann Þórhallsson
0-2 52. mín Jóhann Þórhallsson (víti)
1-2 89. mín Hallgrímur Mar Steingrímsson

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *