Þór og Fjarðabyggð áttust við í fyrsta leik annarar umferðar Kjarnafæðimótsins, en liðin leika í B-riðli. Leikurinn var nokkuð jafn framan af – Þórsarar voru meira með boltann en leikmenn Fjarðarbyggðar vörðust vel og gáfu ekki mörg færi á sér. Á 22. mínútu tókst heimamönnum þó að brjóta ísinn. Núma Kárasyni tókst þá að brjóta vörn Fjarðarbyggðar á bak aftur og lagði boltann glæsilega í netið. Sjö mínútum síðar voru Þórsarar með boltann í vörninni, en of stutt sending aftur á Aron í markinu varð til þess að Víkingur Pálmason komst í milli og skoraði af stuttu færi. Staðan í hálfleik var því jöfn, 1-1.
Þórsarar mættu mun sterkari til leiks í síðari hálfleiknum. Á 56. mínútu var brotið á sóknarmanni Þórsara innan vítateigs Fjarðabyggðar og vítaspyrna því dæmd. Ármann Pétur Ævarsson steig á punktinn og skoraði af öryggi, 2-1 fyrir Þór. Á 72. mínútu fékk Guðni Sigþórsson boltann við vinstra vítateigshorn Fjarðabyggðar. Hann lék þar á tvo varnarmenn og skoraði með föstu skoti niðri í nærhornið. Fimm mínútum síðar minnkaði Fjarðabyggð muninn í 3-2. Misskilningur varð í vörn Þórs sem leiddi til þess að sending frá varnarmanni utan vítateigs hafnaði í þeirra eigin marki, en Fjarðabyggð átti því von um að geta náð stigi úr leiknum. Þær vonir urðu að engu á 80. mínútu, þegar Ármann Pétur Ævarsson fékk glæsilega sendingu utan af kannti og skallaði boltann í netið við markteig. Þetta reyndist síðasta mark leiksins og Þórsarar unnu 4-2. Fjarðabyggð varðist á köflum vel í leiknum en sigur Þórsara verður þó að teljast verðskuldaður.
Maður leiksins: Ármann Pétur Ævarsson (Þór)
1-0 22. mín Númi Kárason
1-1 29. mín Víkingur Pálmason
2-1 56. mín Ármann Pétur Ævarsson (vítaspyrna)
3-1 72. mín Guðni Sigþórsson
3-2 77. mín (sjálfsmark)
4-2 80. mín Ármann Pétur Ævarsson