Þrír leikir fóru fram í gær og voru þeir allir lokaleikir riðlakeppni mótsins.
Ungir KA strákar komu á óvart
Dagurinn hófst með leik KA4 og Hattar frá Egilsstöðum. Fyrirfram bjuggust margir við öruggum sigri Hattar en annað kom á daginn. Leikurinn var gríðarlega jafn og spennandi og skiptust liðin á að sækja. Kornungir KA strákar uppskáru loksins mark á 70.mínútu leiksins þegar Sigurður Emil Óskarsson skoraði með góðu skoti. Austanmenn sóttu stíft en höfðu ekki erindi sem erfiði og á lokamínútu uppbótartíma skoraði Steinar Dagur Bergvinsson enn eitt markið sitt í mótinu og innsiglaði sigur heimamanna. Bruno Martins aðstoðarþjálfari Hattar fékk að líta rauða spjaldið á 60.mínútu og ákvað aganefnd KDN að úrskurða hann í eins leiks leikbann fyrir hegðun sína.


Litlaust jafntefli
Næst var komið að leik Þórs og KFA. Bæði lið stilltu upp sterkum liðum og lék Ágúst Eðvald Hlynsson sinn fyrsta leik fyrir Þór. Skemmst er frá að segja að ekkert er hægt að skrifa um leikinn því hann endaði með markalausu jafntefli og var bragðdaufur. Þórsarar voru mun meira með boltann en sköpuðu sér fá marktækifæri. Með stiginu tryggðu Þórsarar sér 2.sæti riðilsins með betri markatölu en KA2. Magni frá Grenivík sigruðu riðilinn og eru komnir í undanúrslit ásamt Þórsurum.


KA valtaði yfir Völsung í Boganum
KA tók á móti Völsungi í lokaleik þeirra í riðlakeppni í A-deild Kjarnafæðimótsins í gærkvöld fyrir framan þétt setinn Bogann. Lokatölur urðu 9–1 eftir að KA-menn tóku öll völd á vellinum eftir jafna byrjun. Mikil meiðsli og veikindi hrjá Húsvíkinga og fengu þeir nokkra unga KA menn að láni fyrir leikinn og lið þeirra var skipað kornungum leikmönnum ásamt reynsluboltunum Elfari Árna og Steinþóri Frey Þorsteinssyni. Leikurinn hófst af krafti og jafnræði var með liðunum fyrstu 15 mínúturnar. Völsungur komst yfir á 9. mínútu þegar Elfar Árni Aðalsteinsson skoraði úr vítaspyrnu. Sú staða entist þó skammt því KA svaraði með miklum látum og tók leikinn algjörlega yfir. Hallgrímur Mar Steingrímsson jafnaði metin á 12. mínútu og eftir það hófst markahrina heimamanna. Snorri Kristinsson kom KA yfir á 20. mínútu með góðu skoti áður en fyrrum Völsungurinn Jakob Héðinn Róbertsson skoraði tvö mörk með stuttu millibili, fyrst úr víti á 29. mínútu og svo aftur á 32. mínútu. Staðan í hálfleik var afar þægileg fyrir KA og þeir héldu áfram þar sem frá var horfið í seinni hálfleik. Hallgrímur Mar Steingrímsson fullkomnaði þrennuna með mörkum á 47. og 65. mínútu. Viktor Breki Hjartarson lét einnig til sín taka eftir að hafa komið inn af varamannabekknum og skoraði tvö mörk, á 75. og 86. mínútu, og á milli þeirra bætti Ívar Örn Árnason við marki á 79. mínútu. Lokatölur 9-1 og KA menn öruggir í undanúrslit en á morgun skýrast línur endanlega þegar Þór2 og Dalvík eigast við. Þar geta Þórsarar tryggt sér sigur í riðlinum.


Myndir úr KA4 – Höttur: Þorsteinn Stefán





















































Myndir úr Þór – KFA: Ármann Hinrik






























Myndir úr Völsungur – KA: Ármann Hinrik











































































































































