Einn leikur fór fram í Kjarnafæðimótinu í kvöld og var hann hreint út sagt ótrúlegur. Völsungar tóku þar á móti Þór, en leikurinn var fyrirhugaður á PCC vellinum á Húsavík á morgun, en að beiðni þjálfara var leikurinn færður inn í Bogann og leikinn í kvöld.
Strax í upphafi mátti sjá að leikurinn yrði opinn og mikil skemmtun. Bæði lið sóttu stíft þegar þau náðu boltanum og allt stefndi í mikinn markaleik en fáir hafa getað ímyndað sér hvað var að fara í gang. Þórsarar skoruðu fyrsta mark leiksins á 10.mínútu og var þar að verki Fannar Daði Malmquist Gíslason. Þremur mínútum síðar opnuðust flóðgáttir í vörn Húsvíkinga og Þórsarar skoruðu 4 mörk á 6 mínútna kafla. Hreint ótrúlegt. Mörkin skoruðu Vilhelm Otto Biering á 13.mínútu, Sigfús Fannar Gunnarsson á 15.mínútu og svo skoruðu Ýmir Már Geirsson og Sigfús Fannar báðir, með nokkra sekúntna millibili á 18.mínútu.
Áfram héldu Þórsarar að pressa Völsunga hátt og Kristófer Kristjánsson skoraði á 24.mínútu og Ingimar Arnar Kristjánsson á þeirri 31. Hálftími búinn og staðan 7-0 fyrir Þór. Jakob Héðinn Róbertsson minnkaði muninn fyrir Völsunga á 38.mínútu en Kristófer Kristjánsson setti eitt mark enn fyrir Þórsara á 44.mínútu og staðan 8-1 í hálfleik.
Jakob Gunnar Sigurðsson minnkaði muninn fyrir Völsung á 48.mínútu en á 54.mínútu skoraði Hermann Helgi Rúnarsson enn á ný fyrir Þór. Ingimar Arnar Kristjánsson og Nikola Kristinn Stojanovik skoruðu svo tvö mörk fyrir Þórsara með einnar mínútu millibili á mínútum 62 og 63. Við þetta róaðist leikurinn mikið og fleiri urðu mörkin ekki en Einar Ísfjörð Sigurpálsson varði vítaspyrnu frá Þórsurum undir lokin.
Úrslit leiksins 11-2 fyrir Þórsara í hreint ótrúlegum leik sem var hin besta skemmtun fyrir fjölmarga áhorfendur í kvöld.