15 mörk í leikjum Kjarnafæðimótsins í dag

Þrír leikir voru spilaðir í Kjarnafæðimótinu í dag. Kl 13 mættust Þór2 og KFA. Leikurinn var jafn og gat fallið hvoru megin sem var. Þórsarar komust yfir á 32.mínútu með marki frá Sverri Páli Ingasyni og Kristinn Bjarni Andrason tvöfaldaði forskotið á markamínútunni. Marteinn Már Sverrisson, fyrirliði KFA minnkaði muninn strax í upphafi seinni hálfleiks en Kristinn Bjarni Andrason skoraði aftur fyrir Þórsara á 76.mínútu og staðan orðin 3-1. Daníel Grzegorzsson minnkaði muninn aftur fyrir KFA á 87.mínútu og mikil spenna komin í leikinn. Þórsarar náðu hinsvegar að verjast sprækum austfirðingum og unnu leikinn að lokum 3-2.

Í öðrum leik dagsins áttust við kvennalið FHL/Einherja og Tindastóll. Leikurinn var jafn og skemmtilegur og austanstelpur voru síst lakari aðilinn fram eftir leiknum. María Dögg Jóhannsdóttir skoraði fyrsta mark Tindastóls eftir 16.mínútna leik og þannig stóðu leikar í hálfleik. Í síðari hálfleik kom getumunur liðanna i ljós og Aldís María Jóhannsdóttir skoraði þrennu með stuttu millibili, eða á mínútum 53, 60 og 70. Leiknum lauk því með 4-0 sigri Tindastóls.

Í þriðja og síðasta leik dagsins áttust við kvennalið Völsungs og Þór/KA. Ljóst var að róðurinn yrði þungur fyrir Völsungsstelpur sem leika í 2.deild gegn Bestudeildarliði Þórs/KA og varð það raunin strax í upphafi leiks. Sandra María Jessen kom Þór/KA yfir strax á 3.mínútu og Amalía Árnadóttir tvöfaldaði forskotið á þeirri 5. Á 16.mínútu skorðaði Hulda Ósk Jónsdóttir þriðja markið og Sandra María skoraði svo annað mark sitt á 32.mínútu. Amalía skoraði annað mark sitt á 34 mínútu og staðan 5-0 þegar flautað var til leikhlés. Það er ljóst að hálfleiksræða Aðalsteins Jóhanns Friðrikssonar, þjálfara Völsungs hefur verið á hreinni íslensku, því allt annað var að sjá til þeirra Húsvísku í seinni hálfleik. Aðeins eitt mark bættist í sarpinn í seinni hálfleik þegar Una Móeiður Hlynsdóttir skoraði sjötta mark Þórs/KA á 83.mínútu og þar við sat. Þór/KA sigraði 6-0