Lið FC Samba hefur komið mjög sterkt til leiks í upphafi Utandeildar KDN 2019. Liðið spilaði fyrstu tvo leiki mótsins gegn sigurvegurum síðasta árs, Æskunni, auk FC Galaxy – og vann báða leikina mjög sannfærandi.
Æskan 1-3 FC Samba
Það voru ekki nema um 4 mínútur liðnar af opnunarleik Utandeildarinnar þegar Alexander Arnar Þórisson, markakóngur Utandeildarinnar árið 2017, kom FC Samba yfir. Æskan var þó ekki lengi að svara fyrir sig því Viktor Andrésson jafnaði tveimur mínútum síðar, en strax á 7. mínútu kom Alexander FC Samba aftur yfir. Staðan í hálfleik var 2-1 fyrir FC Samba.
Leikurinn var í járnum allan síðari hálfleikinn og bæði lið að spila fínan sóknarfótbolta. Það var síðan Jón Heiðar Gestsson sem gerði út um leikinn með því að skora þriðja mark FC Samba þegar fjórar mínútur lifði leiks. Niðurstaðan varð því 3-1 sigur FC Samba.
FC Galaxy 1-6 FC Samba
Leikurinn byrjaði nokkuð rólega, en bæði lið héldu boltanum ágætlega. Í fyrstu alvöru sókn FC Samba tókst Alexander Arnari Þórissyni að pota boltanum yfir marklínuna eftir að þvaga myndaðist fyrir framan markið þegar leikmenn FC Galaxy reyndu að hreinsa í burtu. Eftir markið fór leikurinn í sama horf og í byrjun og lítið var um marktækifæri. Fimm mínútum fyrir hálfleik skoraði Jón Ágúst glæsilegt mark fyrir FC Samba eftir frábært samspil upp vinstri vænginn og sendingu fyrir á Jón sem setti boltann í hægra hornið. Hálfleikstölur voru 2-0.
Óhætt er að segja að Alexander Arnar Þórisson hafi átt fyrstu mínútur síðari hálfleiks, en á fimm mínútna kafla skoraði hann þrjú mörk og kláraði þar með leikinn fyrir FC Samba. Eftir þetta gáfu leikmenn Samba nokkuð eftir og FC Galaxy komst betur inn í leikinn. Anton Örn Pálsson minnkaði muninn fyrir FC Galaxy með marki úr vítaspyrnu, en Konráð Þór Vilhjálmsson rak smiðshöggið á sigur FC Samba með því að skora sjötta markið úr vítaspyrnu sem hann fiskaði sjálfur. Lokatölur voru því 6-1 fyrir FC Samba.