Dalvík/Reynir sigrar B-deildina á dramatískan hátt

Dalvík/Reynir 5-0 Tindastóll
1-0 2′ Ísak Sigurjónsson (sjálfsmark)
2-0 15′ Sveinn Margeir Hauksson
3-0 89′ Fannar Daði Malmquist Gíslason
4-0 90′ Baldvin Ingvason
5-0 90’+3 Brynjar Skjóldal Þorsteinsson

Rauð spjöld
87′ Jóhann Daði Gíslason (Tindastóll)
90’+4 Ísak Sigurjónsson (Tindastóll)

Ljóst var fyrir leikinn að Dalvík/Reynir þyrfti að vinna 5 marka sigur til að tryggja sér sigur í B-deild Kjarnafæðimótsins, en að öðrum kosti myndi Höttur/Huginn sigra deildina. Eins gat Tindastóll komist uppfyrir Dalvík/Reyni í 2. sæti deildarinnar með sigri.

Leikurinn byrjaði mjög vel fyrir Dalvík/Reyni því Ísak Sigurjónsson varð fyrir því óláni að setja boltann í eigið net strax á 2. mínútu. Á 15. mínútu tvöfaldaði Sveinn Margeir Hauksson forystu Dalvíkur/Reynis, og staðan í hálfleik var 2-0.

Dalvík/Reynir hafði góð tök á leiknum en gekk illa að bæta við mörkum. Leikurinn virtist vera við það að fjara út og Höttur/Huginn að landa sigri í B-deildinni þegar ótrúlegur lokakafli fór í hönd. Á 87. mínútu fékk Jóhann Daði Gíslason leikmaður Tindastóls beint rautt spjald frá Valdimari Pálssyni dómara leiksins. Á 89. mínútu skoraði Fannar Daði Malmquist Gíslason þriðja mark Dalvíkur/Reynis. Mínútu síðar kom Baldvin Ingvason Dalvík/Reyni í 4-0 og allt í einu var staðan orðin sú að Dalvík/Reynir þurfti bara eitt mark í uppbótartímanum. Það mark kom á endanum, því Brynjar Skjóldal Þorsteinsson skoraði fimmta mark Dalvíkur/Reynis á þriðju mínútu uppbótartímans og tryggði Dalvík/Reyni þar með sigur í B-deild Kjarnafæðimótsins á þennan ótrúlega hátt. Dalvík/Reynir og Höttur/Huginn enduðu bæði mótið með 11 stig og 9 mörk í plús, en Dalvík/Reynir sigraði mótið á fleiri mörkum skoruðum. Tindastóll endar í þriðja sæti með 7 stig.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *