Þór 1-0 KA2
1-0 11’ Aron Kristófer Lárusson
Þór og KA2 mættust í dag í A-riðli Kjarnafæðimótsins, en þetta var fyrsti keppnisleikur Þórs undir stjórn nýs þjálfara, Gregg Ryder. Leikurinn hófst á þungri sókn Þórs en á fyrstu mínútum leiksins áttu Þórsarar bæði skot í slá eftir aukaspyrnu og einnig skot í stöng. Það var því fullkomlega í takt við gang leiksins þegar bakvörðurinn Aron Kristófer Lárusson kom Þór yfir á 12. mínútu. Hann fékk þá boltann hægra megin í vítateignum og þrumaði honum í fjærhornið, stöngin inn.
Leikurinn róaðist heldur eftir þetta en Þórsarar voru áfram líklegri aðilinn. Á 26. mínútu hefðu Þórsrar getað tvöfaldað forystuna en skotið rataði rétt framhjá markinu. Tveimur mínútum síðar fengu KA2 sitt fyrsta alvöru færi en Stefán Viðar Stefánsson í marki Þórs varði boltann í horn. Hálfleikstölur voru 1-0 Þórsurum í vil.
KA2 byrjuðu seinni hálfleikinn af krafti og eftir þriggja mínútna leik fengu þeir fínt færi en skot þeirra frá markteig fór beint í fang markvarðar Þórs. Nóg var um marktækifæri í síðari hálfleiknum. Á 66. mínútu áttu Þórsarar annað skot í stöng eftir aukaspyrnu rétt utan við teig KA2. Á 69. mínútu fengu KA-menn gott færi eftir skyndisókn en skotið fór yfir markið. Á 74. Mínútu áttu Þórsarar enn eitt stangarskotið úr dauðafæri, KA2 bruna upp í skyndisókn og skapa sér sjálfir dauðafæri en skotið fer framhjá markinu. Tveimur mínútum síðar fá Þórsari gott færi eftir hornspyrnu en skallinn var misheppnaður og KA2 sleppur með skrekkinn. Smám saman fjaraði leikurinn út og 1-0 sigur Þórs varð staðreynd, en sigurinn hefði þó miðað við gang leiksins getað orðið nokkru stærri. Þórsarar áttu tíu skot að marki í leiknum en KA2 fimm.