Magni, Dalvík/Reynir og KF með sigra

Fyrstu þremur leikjum Kjarnafæðimótsins 2019 er nú lokið, þar sem Magni, Dalvík/Reynir og KF tryggðu sér sigra.

Magni 4-0 KA2
1-0 32’ Áki Sölvason
2-0 47’ Áki Sölvason
3-0 66’ Marinó Snær Birgisson
4-0 87’ Anton Örn Pálsson

Magni og KA2 áttust við í opnunarleik Kjarnafæðimótsins 2019. Þetta er í fyrsta skipti sem Kjarnafæðimót KDN hefst í desember, en ástæðan fyrir því er sú að liðunum fjölgaði upp í 12 að þessu sinni og því varð að fjölga leikdögum.

Það voru Magnamenn sem fengu fyrsta færi mótsins strax á 4. mínútu leiksins, en þá varði Ísak Andri Maronsson Olsen markvörður KA3 frá Kristni Þór Rósbergssyni úr álitlegri stöðu. Magni var sterkari aðilinn framan af leik, en um miðjan fyrri hálfleik komst KA3 betur inn í leikinn og átti nokkrar álitlegar sóknir. Á 32. mínútu leiksins fékk Magni aukaspyrnu við miðjan völlinn, og eftir gott spil upp vinstri vænginn fékk Áki Sölvason boltann í svæðinu milli miðvarðar og bakvarðar. Áki kláraði færið vel með því að leggja boltann undir markvörð KA3 í fjærhornið og skoraði þar með fyrsta mark leiksins. Hálfleikstölur voru 1-0 Magna í vil.

Það voru ekki nema um tvær mínútur liðnar af síðari hálfleik þegar Magnamenn fengu hornspyrnu sem KA3 gekk illa að hreinsa í burtu. Boltinn barst að lokum á Áka Sölvason sem varð ekki á nein mistök og kom boltanum örugglega í netið, 2-0. Á 66. mínútu gerði Marinó Snær Birgisson út um leikinn fyrir Magna þegar hann fékk boltann hægra megin í vítateignum og hamraði boltann í fjærhornið, óverjandi fyrir markvörð KA3.

Heilt yfir var síðari hálfleikur mun rólegri en sá fyrri. Magnamenn voru meira með boltann án þess að skapa sér mjög mikið af færum, en KA3 gekk illa að halda boltanum innan liðsins og byggja upp álitlegar sóknir. Anton Örn Pálsson rak smiðshöggið fyrir Magnamenn með því að skora síðasta mark leiksins á 87. mínútu. Magni spilaði þá boltanum vel úr öftustu línu upp hægri vænginn, þar sem Ingólfur Birnir Þórarinsson sendir boltann inn á teiginn og Anton Örn klárar vel. Niðurstaðan varð sanngjarn 4-0 sigur Magna.

————————–

KA3 0 – 4 KF
0 – 1  Halldór Logi Hilmarsson  18 mín
0 – 2  Aksentije Milisic 51 mín (víti)
0 – 3  Friðrik Örn Ásgeirsson  63 mín
0 – 4  Atli Fannar 64 mín

Gul spjöld: KA Atli Snær Stefánsson á 8 mín, Sveinn Sigurbjörnsson á 84 mín. KF Björgvin Daði Sigurbergsson á 21 mín, Jakob Auðun Sindrason á 43 mín, Aksentije Milisic á 45 mín.

Fyrri hálfleikur einkenndist af mikilli baráttu en leikmenn KF voru þó ívíð sterkari og uppskáru mark þergar Halldór Logi skallaði í netið. Leikurinn jafnaðist eftir markið og bæði lið fengu ágætis færi en meira var ekki skorað í fyrri hálfleik.

Leikmenn KF tóku síðan yfir leikinn í seinni hálfleik, þeir fengu víti eftir að togað var í leikmann  sem var sloppinn í gegn. Aksentije skoraði örugglega úr vítinu. Á 63 mín skoraði Friðrik Örn glæsilegt mark eftir að boltinn hafði borist á fjærstöng eftir aukaspyrnu, en hann hamraði boltanum viðstöðulaust upp í þaknetið. Sigurinn var svo gulltryggður mínútu síðar þegar Atli Fannar braust í gegn og setti boltann örugglega framhjá markverði KA3. Leikurinn fjaraði út eftir þetta, KF fengu betri færi til að bæta við en inn vildi boltinn ekki. 

————————–

Dalvík/Reynir 2-0 Þór2
1-0 12’ Nökkvi Þeyr Þórisson
2-0 16’ Fannar Daði Malmquist Gíslason

Dalvík/Reynir og Þór2 mættust í fyrstu umferð B-riðils Kjarnafæðimótsins. Það voru Þórsarar sem fengu fyrsta marktækifæri leiksins. Á 8. Mínútu fengu þeir aukaspyrnu á miðjum vallarhelmingi Dalvíkur/Reynis og sendu boltann inn í miðjan teig, þar sem skalli þeirra fór yfir markvörð Dalvíkur/Reynis og small í stönginni. Þar skall hurð nærri hælum fyrir Dalvík/Reyni.

Fyrsta mark leiksins kom á 12. mínútu. Leikmenn Dalvíkur/Reynis unnu þá boltann í vörninni eftir sókn Þórs2, brunuðu upp vinstri kanntinn og sendu boltann fyrir þar sem Nökkvi Þeyr Þórisson var réttur maður á réttum stað og kláraði færið vel. 1-0 fyrir Dalvík/Reyni.

Fjórum mínútum síðar voru leikmenn Þórs2 í vandræðum með að koma bolatnum í burtu úr eigin vítateig eftir sókn Dalvíkur/Reynis. Boltinn berst að lokum til Fannars Daða Malmquist Gíslasonar sem hamrar boltann í netið af stuttu færi. Fátt markvert gerðist síðari hluta fyrri hálfleiks og staðan því 2-0 fyrir Dalvík/Reyni í hálfleik.

Síðari hálfleikur var heilt yfir frekar rólegur þar sem liðin skiptust á að sækja en ljóst að Dalvík/Reynir voru með fín tök á leiknum. Þeir sigldu sigrinum heim og unnu að lokum 2-0 sigur.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *