Þór 2 vann KA 3 í miklum baráttuleik

Í gærkvöldi fór fram leikur KA 3 og Þór 2 í Kjarnafæðimótinu en liðin hafa á að skipa leikmönnum sem eru í 2. flokk félaganna. Það má segja að þetta hafi verið klassískur leikur þegar þessi lið mætast. Þá er yfirleitt hart barist og miklar tilfinningar brjótast fram þegar á leiknum stendur og sem dæmi voru dæmdar 38 aukaspyrnur í leiknum.

Leikurinn byrjaði fjörlega og strax á 5. mínútu skoruðu Þórsarar. Þeir vinna boltann á sínum vallarhelmingi og geysast upp vinstri kantinn í skyndisókn og að lokum kemur boltinn fyrir þar sem Sölvi Sverrisson tekur vel á móti boltanum, leikur á einn varnarmann KA-manna og hamrar boltann í þaknetið og staðan 0-1 fyrir Þór. Þórsarar áttu ekki fleiri skot á markið í fyrri hálfleik.

Á 9. mínútu byggja KA-menn upp sókn á vinstri kantinum. Boltanum er leikið meðfram jörðinni þéttingsfast fyrir markið þar sem Kristján Már Guðmundsson stingur sér framfyrir varnarmann Þórs og potar boltanum í markið og staðan orðin 1-1.
Fyrri hálfleikur þróaðist þannig eftir markið að KA-menn reyndu að byggja upp sóknir sínar með stuttu spili sem gekk erfiðlega í raun allan leikinn á meðan þórsarar hömruðu boltanum hátt og langt í öllum sínum sóknaraðgerum allan leikinn og á tímbili í seinni hluta fyrri hálfleiksins var þetta eins og góður borðtennisleikur þar sem boltinn gekk hratt á milli liða.

Seinni hálfleikurinn þróaðist svipað og sá fyrri, mikil barátta og menn í vandræðum með að byggja upp einhverjar álitlegar sóknir. Á 61. mínútu fá Þórsarar eina af fjölmörgum aukaspyrnum þessa leiks á hægri kannti. Boltanum er spyrnt fyrir og er Hafsteinn Ingi Magnússon einn og óvaldaður í vítateig KA-manna og skallar boltann í markið. Staðan 1-2 Þórsurum í vil.

Eftir þetta er hart barist en hvorugt liðið nær að skapa sér nokkur færi, fyrr en mjög seint í seinni hálfleik að KA-menn eiga skot í samskeytin og út. Annars fjaraði leikurinn út og að lokum fóru Þórsarar með sigur að hólmi.
Maður Leiksins. Tómas Örn Arnarson (Þór 2)

Tölfræði:

KA3 Þór 2
6 Skot á mark 4
7 Hornspyrnur 1
18 Leikbrot 20
3 Rangstaða 4
1 Mark 2

KA 3 1 – 2 Þór 2

0-1 5’ Sölvi Sverrisson
1-1 9’ Kristján Már Guðmundsson
1-2 61’ Hafsteinn Ingi Magnússon

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *