Umfjallanir um leiki 10. umferðar Kjarnafæðideildarinnar

Næst síðasta umferð Kjarnafæðideildarinnar var leikin í Boganum í kvöld. Æskan mætti Jattebrä í öðrum af fyrstu leikjum kvöldsins. Þegar leikurinn var flautaður á voru einungis 6 leikmenn Æskunnar mættir til leiks, og FC Jattebrä nýtti sér liðsmuninn með því að skora tvö mörk á fyrstu 13 mínútum leiksins. Eftir að 7. leikmaður Æskunnar mætti og jafnt var aftur í liðum tók Æskan yfirhöndina og minnkaði muninn í 2-1 fyrir hálfleik. Í síðari hálfleik hélt Æskan áfram að sækja og jafnaði metin með marki á 37. mínútu. Fjórum mínútum síðar komst Jattebrä aftur yfir með góðu marki úr skyndisókn. Fimm mínútum fyrir leikslok jafnaði Æskan svo verðskuldað metin. Jafntefli varð niðurstaðan þrátt fyrir á þessi leikur hefði getað farið á hvaða veg sem er. Alexander Arnar Þórisson, Gunnar Árnason og Úlfur Saraphat Þórarinsson skoruðu mörk FC Jattebrä en Bjarki Kristjánsson, Ingólfur Stefánsson og Ruben Raes sáu um að skora mörkin fyrir Æskuna.

FC Böggur og FC Úlfarnir 010 áttust við. Fyrri hálfleikur var frekar bragðdaufur enda mikið í húfi fyrir Úlfana, því með sigri myndu þeir spila úrslitaleik gegn UMF Sölvi. Lítið var um færi – allt stál í stál. Í síðari hálfleik fóru leikar að æsast, menn fóru að vera pirraðir, brjóta klaufalega af sér og þess háttar. Það dró til tíðinda þegar varnarmaður FC Böggur sendi boltann aftur á markvörð sinn, en ekki vildi betur til en svo að boltinn fór í eigið mark og staðan því orðin 1-0 fyrir Úlfana. Leikmenn FC Böggur fóru að sækja meira á kostnað skipulags varnar þeirra. Birgir Þór Þrastarson, leikmaður FC Böggur, lét reka sig útaf fyrir ljótt orðbragð í garð dómara eftir viðskipti við Sinisa Pavlica. Eftir þetta varð leikurinn þægilegri fyrir Úlfana sem bættu við einu marki – en þar var að verki Magnús Birgir Kristinsson. Úlfarnir unnu því að lokum 2-0 sigur, og ljóst er að næsta fimmtudag verður leikinn hreinn úrslitaleikur Úlfanna og UMF Sölva um Kjarnafæðideildartitilinn.

Babúska og FC Sopalegir mættust í mjög hörðum slag. Leikurinn var rólegur framan af, en FC Sopalegir spiluðu skipulagða vörn aftarlega á vellinum og beittu hættulegum skyndusóknum. Babúska komst yfir á 9. mínútu leiksins en FC Sopalegir jöfnuðu á þeirri 17. Tveimur mínútum síðar komst Babúska aftur yfir en ekki leið mínúta áður en leikmenn FC Sopalegir höfðu jafnað metin aftur. Þremur mínútum fyrir hálfleik komst Babúska svo í 3-2, en þannig stóðu leikar í hálfleik. Í síðari hálfleik héldu liðin uppteknum hætti og skiptust á að skora. Einungis 3 mínútur voru liðnar af síðari hálfleik þegar FC Sopalegir jöfnuðu, en þremur mínútum síðar komst Babúska aftur yfir. Á 39. mínútu jöfnuðu FC Sopalegir í fjórða skipti í leiknum. Það dugði ekki til, því Kristján Loftur Helgason skoraði sigurmark Babúska þegar 3 mínútur voru til leiksloka. Leiknum lauk því með ótrúlegum 5-4 sigri Babúska, í síðasta leik liðsins í Kjarnafæðideildinni í sumar. Kristján Loftur Helgason skoraði þrennu fyrir Babúska og Davíð Jón Stefánsson tvö mörk. Fyrir FC Sopalegir skoruðu þeir Ales Mucha, Bergur Már Flosason, Guðni Már Kjartansson og Rafnar Orri Gunnarsson eitt mark hver.

Lið KS mætti ekki til leiks og tapaði því leik sínum gegn UMF Sölva 3-0.

Síðasti leikur kvöldsins var leikur Hata og FC Mývetnings. FC Mývetningur hafði mikla yfirburði í leiknum. Hálfleikstölur voru 9-1, FC Mývetningi í vil, og endaði leikurinn 17-1. Júlíus skoraði 4 mörk fyrir Mývetninga en Konráð Vilhjálmsson og Reynir Hannesson 3 mörk hvor. Hjörtur Gylfason, Skarphéðinn Jónsson og Elvar Goði Yngvason skoruðu tvö mörk hver auk þess sem Hjalti Gylfason skoraði eitt mark. Mark Hata skoraði Benedikt Ármannsson.

Síðasta umferð Kjarnafæðideildarinnar verður leikinn næstkomandi fimmtudag, 31. ágúst, en venju samkvæmt verður öllum leikmönnum mótsins boðið í hamborgaragrillveislu í Hamri, sem hefst eftir að fyrstu leikir kvöldsins klárast og stendur þar til síðustu þátttakendur yfirgefa svæðið.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *