Magni og Þór 2 skildu jöfn

Leikur Magna og Þór 2 fór rólega af stað og bæði lið hugsuðu meira um varnarleikinn heldur en sóknarleikinn. Á 7. mínútu var réttilega dæmt mark af Þórsurum þar sem brotið var á markverði Magna eftir hornspyrnu.  Fimmtán mínútum síðar komst svo sóknarmaður Þórs inn í slaka sendingu varnarmanns Magna og komst einn gegn Hirti í markinu en hann lokaði vel og varði frábærlega.  Á 37. mínútu fengu Magnamenn svo tvö dauðafæri til að komast yfir.  Fyrst varði Sævar í marki Þórs vel skot frá Jóhanni Þórhallssyni en frákastið féll fyrir annan sóknarmann sem stóð fyrir opnu marki en skotið var slakt og varnarmenn Þórs björguðu á línu.  Tveimur mínútum seinna gerði Sævar afdrífarík mistök þegar hann reyndi að þvæla sóknarmann í eigin vítateig en missti boltann og Jóhann Þórhallsson skoraði auðvelt mark. Þórsarar áttu svo skalla í slá eftir góða sókn í sinni síðustu sókn í fyrri hálfleik. 

Í síðari hálfleik voru Þórsararnir aðeins ferskari og Hjörtur varði meðal annars gott skot úr aukaspyrnu í slá.  Magnamönnum urðu svo á mikil mistök á 69. mínútu þegar þeir misstu boltann í sínum eigin vítateig og hann barst til Marinós Snæs Birgissonar sem kláraði færið örugglega.  Bæði lið fengu svo færi til að klára leikinn og áttu Magnamenn meðal annars skalla í þverslá og niður á línu, en inn vildi boltinn ekki og því sanngjarnt jafntefli niðurstaðan.

1-0 39. mín Jóhann Þórhallsson
1-1 69. mín Marínó Snær Birgisson

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *