KA á topp A deildar eftir sigur á Magna

1-0, 45 mín. Þorri Mar Þórisson
2-0, 47 mín. Þorri Mar Þórisson
3-0, 55 mín. Hrannar B. Steingrímsson
3-1, 73 mín. Þorsteinn Már Þorvaldsson
4-1, 90 mín. Tómas Örn Arnarson, sjálfsmark

KA og Magni áttust við í Kjarnafæðismótinu í kvöld, og í upphafi mátti ekki á milli sjá hvort liðið er í Pepsi deild og hvort í 1.deild. Magnamenn voru mjög ákafir fyrstu 20 mín leiksins og voru þá síst lakari aðilinn. Þeir fengu dauðafæri á 3. mín eftir mistök markvarðar KA en skutu yfir. KA skoraði reyndar mark á 6. mín en Steinþór Freyr var dæmdur rangstæður og markið taldi því ekki. Það varsíðan á 21. mín sem KA fékk fyrsta opna færið þegar Þorri Mar átti skot úr vítateignum rétt framhjá marki gestanna. Eftir þetta fór sókn KA að þyngjast og síðustu 10 min fyrri hálfleiksins fengu þeir hvert dauðafærið af öðru sem þeim tókst ekki að nýta fyrr en Þorri Mar skoraði af stuttu færi eftir að hornspyrna barst í gegnum þvögu leikmanna til hans og auðvelt fyrir hann að pota boltanum í netið. Þetta var síðasta spyrna fyrri hálfleiks því dómarinn flautaði til hálfleiks um leið og miðjan var tekin.

Þorri Mar bætti sínu öðru marki við strax í fyrstu alvörusókn seinni hálfleiks. KA menn tóku aukaspyrnu og sendu langan bolta á fjærstöng þar sem boltinn var skallaður fyrir markið aftur og Þorri mætir á ferðinni og setur boltann í netið af öryggi. Heimamenn höfðu öll völd á vellinum næstu mínúturnar og á 55 mín skorar Hrannar bakvörður frábært mark. Hann fékk boltann fyrir utan teig, lék á einn varnarmann og nelgdi boltann neðst í hornið, óverjandi fyrir markvörð Magna. Glæsilegt skot. Áfram fengu KA nokkur færi til að bæta við mörkum en svo dofnaði yfir leiknum og mörgum varamönnum var skipt inná. Gestirnir sóttu í sig veðrið og náðu að setja mark þegar Þorsteinn Þorvaldsson fylgdi eftir skoti sem markvörður KA varði út í teig og Þorsteinn skoraði af harðfylgni. Leikurinn opnaðist aðeins við þetta og bæði lið áttu fínar sóknir en Tómas Örn Magnamaður varð fyrir því óláni að skora sjálfsmark eftir að hann reyndi að komast fyrir fyrirgjöf eftir hraða sókn KA. Þannig endaði leikurinn með öruggum sigri KA en ágætis frammistaða Magna.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *