Umfjallanir um leiki 6. umferðar Kjarnafæðideildarinnar

FC Böggur 0 – 3 Æskan

Leikur FC Böggur og Æskunnar var nokkuð jafn. Gauti Freyr Guðbjartsson kom Æskunni í forystu á 5. mínútu en einungis mínútu síðar fékk Karl Ólafur Hinriksson, leikmaður Böggur, sitt annað gula spjald. Þrátt fyrir að leika manni færri það sem eftir var leiksins hélt FC Böggur sér inni í leiknum og staðan í hálfleik 1-0 fyrir Æskunni. Áfram var jafnræði með liðunum í síðari hálfleik en Æskan gerði út um leikinn með tveimur mörkum með skömmu millibili um miðjan hálfleikinn – þar voru að verki þeir Jakob Atli Þorsteinsson og Bjarki Kristjánsson. Fleiri urðu mörkin ekki og Æskan sigraði því leikinn 3-0.

Héðinn FC 2 – 6 FC Mývetningur

Héðinn FC tók á móti FC Mývetningum í hörkuleik. Þrátt fyrir harða baráttu var leikurinn prúðmannlega leikinn. Það voru Mývetningar sem sáu um markaskorunina í fyrri hálfleiknum, en þeir Hjörtur Jón Gylfason, Elvar Goði Yngvason og Brynjar Örn Arnarsson sáu til þess að Mývetningar voru með 3-0 forystu í leikhléi. Síðari hálfleikurinn var enn fjörugri en sá fyrri, þar sem alls voru skoruð fimm mörk. Eftir að Jón Ásgeir Þorláksson og Konráð Vilhjálmsson höfðu komið Mývetningum í 5-0 var komið að Héðinn FC. Ólafur Natan Halldórsson og Hilmir Ólason skoruðu með tveggja mínútna millibili og minnkuðu muninn í 5-2. Það voru þó Mývetningar sem áttu síðasta orðið með marki Hjalta Gylfasonar, og unnu þeir því að lokum sanngjarnan 6-2 sigur.

FC Samba 7 – 0 FC Heavyweight

Leikurinn byrjaði vel fyrir FC Samba því strax á 3. mínútu skoraði Alexander Arnar Þórisson með glæsilegum skalla. FC Samba héldu áfram að þjarma að FC Heavyweight og uppskáru annað mark á 11. Mínútu – aftur skalli frá Alexander Arnari. Hann var alls ekki hættur heldur fullkomnaði þrennuna strax á 14. mínútu með góðu skoti. Fjórum mínútum fyrir hálfleik bætti Jón Heiðar Gestsson við marki og hálfleikstölur því 4-0. Guðmundur Geir Hannesson batt endahnútinn á góða sókn Sambamanna á fyrstu mínútu síðari hálfleiks og kom liðinu þar með í 5-0. Þeir Elvar Frans Bjarnason og Alexander Hafþórsson bættu hvor við sínu markinu og lokatölur leiksins því 7-0 fyrir FC Samba.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *