Æskan 3 – 0 Héðinn FC
Leikur Æskunnar og Héðins FC fór rólega af stað, en liðin voru þá að þreifa fyrir sér. Eftir um 10 mínútna leik tóku Héðinsmenn völdin á vellinum, sóttu nokkuð stíft og fengu nokkur ágætis marktækifæri án þess þó að koma boltanum í netið. Það var því gegn gangi leiksins þegar leikmenn Æskunnar áttu góða sókn á 22. mínútu og brotið var á leikmanni liðsins utan teigs. Dómarinn beitti hagnaðarreglunni og lét leikinn halda áfram, boltinn barst á leikmann Æskunnar inni í vítateig þar sem brotið var á honum og vítaspyrna dæmd. Haraldur Örn Hansen fór á punktinn og setti boltann af öryggi uppi í hægra hornið. Æskann leiddi því 1-0 í leikhléi.
Síðari hálfleikur var svipaður þeim fyrri og Héðinsmenn meira með boltann. Það var þó Gauti Freyr Guðbjartsson, leikmaður Æskunnar, sem skoraði tvö mörk með mínútu millibili fyrir miðjan síðari hálfleikinn – í báðum tilfellum eftir að hafa komist inn í sendingar milli varnarmanna Héðins FC. Hann kláraði bæði færin vel og tryggði Æskunni þar með 3-0 sigur. Sigurinn var heldur stór miðað við gangleiksins og ljóst að leikmenn Héðins FC geta tekið ýmislegt jákvætt út úr þessum leik.
FC Heavyweight 1 – 5 FC Böggur
Framan af leik var jafnræði með liðunum og skiptust þau á að sækja. Á 9. mínútu áttu FC Heavyweight góða sókn sem endaði með því að Hilmar Örn Gunnarsson smellti boltanum í netið og kom FC Heavyweight yfir, 1-0. Forystan stóð þó ekki lengi, því mínútu síðar jafnaði Georg Fannar Haraldsson fyrir FC Bögg. Á síðustu mínútu fyrri hálfleiks komst FC Böggur síðan yfir með marki frá Jóni Birni Þorsteinssyni. Staðan því 2-1 í hálfleik í jöfnum og spennandi leik.
Í síðari hálfleik jók FC Böggur sóknarþungann og bætti við þremur mörkum. Þar voru að verki Jón Pétur Indriðason með 2 mörk og Fannar Haraldur Davíðsson með 1 mark. FC Böggur vann því að lokum góðan sigur, 5-1.
FC Samba 2 – 2 FC Mývetningur
Þessi leikur var jafn og spennandi frá upphafi til enda. Liðin skiptust á að sækja og mátti ekki á milli sjá. FC Samba var þó fyrra liðið til að skora, en á 4. mínútu skoraði Alexander Arnar Þórisson gott mark. Á síðustu mínútu fyrri hálfleiks náði FC Mývetningur að jafna og var þar var verki Jón Ásgeir Þorláksson.
Í síðari hálfleik var það sama uppi á teningnum og áttu bæði lið ágætis færi. Þegar leið á leikinn var ljóst að leikmenn beggja liða hungraði í sigur og var allt lagt í sölurnar. Í lokin var síðan uppskeran eitt mark hjá hvoru liði með mínútu millibili. Fyrst skoraði Símon Símonarson fyrir FC Samba og svo jafnaði Elvar Goði Yngvason að nýju fyrir FC Mývetning – tveimur mínútum fyrir leikslok. Niðurstaðan var því jafntefli í bráðskemmtilegum leik.