Tveir leikir í B-deild

Þór3 og KA4 gerðu 2–2 jafntefli í B-deild Kjarnafæðimótsins á sunnudag.

Það var líf og fjör á sunnudag þegar Þór3 og KA4 áttust við í B-deild Kjarnafæðimótsins. Liðin skildu jöfn, 2–2, eftir skemmtilegan leik. Þór3 tók frumkvæðið í leiknum snemma í seinni hálfleik en þá kom Lárus Sólon Biering heimamönnum yfir með góðu marki. KA4 áttu erfitt með spræka Þórsara sem stýrðu leiknum og þegar Ragnar Logi Björnsson bætti við öðru markinu á 68. mínútu virtust þeir hvítklæddu vera að tryggja sér sigurinn. En þá kviknaði á KA mönnum og það var hinn 15 ára Steinar Dagur Bergvinsson sem tók yfir leikinn. Á 82. mínútu minnkaði hann muninn með flottu marki og kveikti strax líf í sínum mönnum. Steinar Dagur hélt áfram og á 89. mínútu jafnaði hann metin með glæsilegu skoti utan teigs sem sveif í fjærhornið. Steinar hefur ekki langt að sækja hæfileikana því hann er bróðir markavélarinnar Gunnars Darra Bergvinssonar, leikmanns Magna á Grenivík. Úr varð 2–2 jafntefli og bæði lið komin á blað.

KA3 vann sannfærandi sigur á Þór4.

Ívan Logi skoraði fjögur mörk á 13 mínútum þegar KA3 tryggði sér sterkan 5–0 sigur á Þór4 í B-deild í gærkvöldi. Hörður Rafnar Auðars Pálmarsson skoraði á 23. mínútu með góðu skoti eftir mikið klafs í teig Þórsara og þannig stóðu leikar í hálfleik. Eftir það hresstust ungir og sprækir Þórsarar og stýrðu leiknum allt fram á 72. mínútu. Þá steig Ívan Logi Jóhannsson fram og stal senunni algjörlega. Á aðeins 13 mínútum skoraði hann fjögur mörk fyrir KA og kláraði leikinn nánast upp á eigin spýtur. Greinilega mikill markaskorari þar á ferð sem gaman verður að fylgjast með í framtíðinni. Öruggur sigur KA manna staðreynd.